Útskrifuð eftir skoðun á slysadeild
Karl og kona sem bjargað var út úr brennandi íbúð við Mávabraut í gærkvöldi voru útskrifuð eftir skoðun á slysadeild Landsspítala í Fossvogi í gærkvöldi. Þangað voru þau flutt vegna gruns um reykeitrun.
Tilkynnt var um eldinn kl. 20:55 í gærkvöldi og var fjölmennt lið lögreglu og slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja sent á staðinn. Fólkið hafði brotið rúðu í svefnherbergi og var annað þeirra komið út um gluggann en lögreglu- og slökkviliðsmenn hjálpuðu hinu að komast út.
Fólkið var fyrst flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og síðan áfram á Landsspítala til frekari skoðunar. Þaðan var fólkið útskrifað í nótt en því hafði ekki orðið meint af reyknum í íbúðinni.
Íbúðin er mikið skemmd af völdum elds, reyks og sóts. Eldsupptök eru ókunn en verða rannsökuð í dag.