Útskrifast með 10,0 og fékk inni í tölvunarfræði við fremsta háskóla heims
Keflvíkingurinn Njáll Skarphéðinsson hefur fengið inngöngu í Carnegie Mellon-háskóla í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Carnegie Mellon hefur unnið sér inn orðspor fyrir að vera fremsti háskóli í heiminum þegar kemur að tölvunarfræði. Njáll er að ljúka námi við Háskólann í Reykjavík með 10,0 í meðaleinkunn á útskriftarárinu.
„Síðastliðnir átján mánuðir hafa einkennst af fjórtán tíma dögum sem hefur verið skipt skipt á milli vinnu, skóla og undirbúning umsókna en maður uppsker oftast eins og maður sáir,“ segir Njáll í samtali við Víkurfréttir. „Ásamt því að komast inn í Carnegie Mellon þá tókst mér að klára síðasta árið í tölvunarfræðinni með 10,0 í meðaleinkunn, hæstur af nokkuð hundruð nemendum.“
Carnegie Mellon hefur unnið sér inn orðspor fyrir að vera fremsti háskóli í heiminum þegar kemur að tölvunarfræði og umsókn Njáls um meistaranám við skólann hefur verið samþykkt.
Tölvunarfræðideild Carnegie Mellon-háskólans er í þessu húsi.
„Þetta tiltekna mastersnám, MSAII, er það eftirsóttasta í skólanum og hið fremsta í heiminum. Einungis 3,9% þeirra sem sóttu um þetta árið fengu inngöngu. Þetta er auðvitað mikill heiður að vera hluti af slíkum hópi en þarna koma saman einstaklingar sem hafa náð langt í greininni frá öllum heimshlutum þar á meðal Bandaríkjunum, Kína og Indlandi. Þessi árgangur sem ég verð hluti af er í miklum samskipum varðandi komandi skólaár og enn sem komið er sýnist mér ég vera eini Evrópubúinn sem komst inn.“
Meistaranámið sem Njáll mun stunda við skólann, MSAII, einblýnir á gervigreind og vélrænt nám (e. Artificial Intelligence & Machine Learning). Námið er í eðli sínu mjög tæknilegt en það sem aðgreinir það frá öðru sambærilegu námi er hversu rík áhersla þar er lögð á teymisvinnu og þjálfun nemenda til þess að gegna leiðtogastöðum við hönnun og innleiðingu hugbúnaðarkerfa framtíðar sem snúa að gervigreind.
„Ég er þeirrar skoðunar að stóru sóknartækifærin í greininni liggi í hugmyndum sem hafa enn ekki litið dagsins ljós. Þrátt fyrir þá staðreynd að sjálfkeyrandi bílar eru ekki lengur einungis hluti af vísindaskáldskap og við búum í heimi þar sem talgervlar geta pantað pizzu í gegnum síma án þess að nokkur manneskja á hinum endanum verði vör við það, virðast möguleikarnir og nýsköpunartækifærin spretta hraðar upp en við náum að nýta þau til fulls. Það er því mikill heiður að fá að nema hjá einstökum prófessorum og framúrskarandi leiðtogum í tækniheiminum sem hafa mótað nútímann okkar og um leið að hljóta fágætt tækifæri til þess að vinna með þeim sem móta munu heiminn og tilveru okkar til framtíðar,“ segir Njáll Skarphéðinsson í samtali við Víkurfréttir.