Fréttir

Útsendingar frá bæjarstjórn Grindavíkur aftur á borð bæjarráðs
Föstudagur 5. apríl 2019 kl. 05:00

Útsendingar frá bæjarstjórn Grindavíkur aftur á borð bæjarráðs

Bæjarráð Grindavíkur lagði á dögunum til við bæjarstjórn Grindavíkur að eingöngu verði um útsendingu að ræða frá bæjarstjórnarfundum í Grindavík á meðan á fundi stendur en að upptaka frá fundum verði ekki geymd á veraldarvefnum.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku og sköpuðust talsverðar umræður um málið. S- og U-listi í bæjarstjórn lögðu fram sameiginlega bókun sem er svohljóðandi:
„Mikil umræða hefur verið um það á síðustu misserum að gera stjórnsýsluna opnari og auka lýðræði, telja fulltrúar S og U-lista að stjórn bæjarfélagsins og fundir hennar eigi að vera opin öllum íbúum bæjarins. T.d. eiga allar upplýsingar um framkvæmdir og áætlanir að vera aðgengilegar á heimasíðu bæjarins og bæjarbúum þannig gefið tækifæri til þess að tjá sig um þær og hafa þar með áhrif á stjórn bæjarins. Þetta er nauðsynlegt til þess að kjörnir fulltrúar haldi sterkum tengslum við umbjóðendur sína og til þess að stjórn bæjarins sé sem skilvirkust og í takt við þarfir bæjarbúa.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Upplýsingasamfélagið sem við búum í gefur okkur tækifæri til að mæta kröfum íbúa um opnari stjórnsýslu. Beinar útsendingar frá bæjarstjórnarfundum er mjög góð leið til þess að mæta þessum kröfum og auðveldar bæjarbúum að fylgjast með umræðum í bæjarstjórn og þar með mynda sér skoðun á málefnum líðandi stundar. Fulltrúar S- og U-lista telja að Grindavíkurbær eigi að setja markið hátt og skipa sér í forystusveit framsækinna sveitarfélaga með því að skapa hér opið lýðræðislegt og gagnsætt samfélag.

Að hafa þessar upptökur af bæjarstjórnarfundum aðgengilegar fyrir íbúa Grindavíkur eftir að fundi líkur og til frambúðar er sjálfsögð þjónusta sem veitir kjörnum fulltrúum gott og traust aðhald sem er lykill að heiðarlegri og farsælli stjórnsýslu öllum til heilla,“ segir í bókuninni sem undirrituð er af bæjarfulltrúum S- og U-lista.

Forseti bæjarstjórnar kom með tillögu þar sem hann leggur til að vísa málinu aftur til bæjarráðs til frekari umfjöllunar. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða tillögu forseta.