Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Útlendingastofnun flytur í stærra húsnæði á Ásbrú
Ásbrú í Reykjanesbæ.
Föstudagur 16. nóvember 2018 kl. 16:11

Útlendingastofnun flytur í stærra húsnæði á Ásbrú

- aukið rými og möguleiki á að þjónusta mismunandi hópa umsækjenda

Útlendingastofnun tekur á næstu vikum í notkun húsnæði við Lindarbraut á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þá mun Útlendingastofnun hætta leigu núverandi húsnæðis, Airport Inn, við Klettatröð um áramótin. Fram að áramótum verða því bæði húsnæðin í notkun. Nýja húsnæði Útlendingastofnunar á Ásbrú er skammt frá grunnskólanum Háaleitisskóla. 
 
Núverandi húsnæði á Airport Inn rúmar allt að 90 einstaklinga en nýja húsnæðið að Lindarbraut getur tekið við rúmlega 100 einstaklingum í núverandi útfærslu. 
 
„Nýja húsnæðið gefur stofnuninni aukið rými en einnig möguleika á að þjónusta mismunandi hópa umsækjenda,“ segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í skriflegu svari til Víkurfrétta.
 
Útlendingastofnun er með samning við Reykjanesbæ um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en þar er fyrst og fremst um að ræða fjölskyldur sem þiggja þjónustu af sveitarfélaginu. 
 
„Stofnunin leitaði eftir því hvort vilji væri fyrir því hjá sveitarfélaginu að koma að þjónustu við umsækjendur í húsnæðinu að Lindarbraut en sveitarfélagið hafnaði því. Eftir sem áður þjónustar Reykjanesbær þá sem falla undir samninginn við Útlendingastofnun en stofnunin sjálf mun sjá um þjónustu við þá sem koma til með að búa að Lindarbraut með sama hætti og í öðrum úrræðum á vegum stofnunarinnar, bæði á Ásbrú og höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórhildur í svari til Víkurfrétta.
 
Lögreglan á reglulega erindi í úrræði á vegum Útlendingastofnunar þar sem hún er einn af þeim aðilum sem kemur að málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Í fyrirspurn Víkurfétta til Útlendingastofnunar var spurt hvort stofnunin hafi áhyggjur af því að hafa starfsemi sem þarf tíð afskipti lögreglu við hlið grunnskóla.
 
„Stofnunin vill minna á að umsækjendur um alþjóðlega vernd eru ekki öðruvísi en annað fólk þrátt fyrir að staða þeirra og aðstæður séu aðrar en vanalega gerist,“ segir í svari Útlendingastofnunar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024