Útlán bóka dregist saman um 15%
Sambærileg lækkun annars staðar á landinu
Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður bókasafns Reykjanesbæjar upplýsti á fundi menningarráðs í vikunni að 15% fækkun hefði orðið á útlánum bóka á safninu milli áranna 2012 og 2013. Árið 2013 voru útlánin alls 86.598. Nokkrar ástæður geta legið til þessa s.s. að bókasafnið var lokað allan maí og fram í júní vegna flutnings. Forstöðumaður benti einnig á að sambærileg lækkun virðist vera annars staðar á landinu.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu bókasafns Reykjanesbæjar kostar bókasafnskort kr. 1.650 kr. og gildir í 1 ár. Börn og unglingar innan 18 ára fá ókeypis skírteini gegn ábyrgð forráðamanns með lögheimili í Reykjanesbæ. Eldri borgarar með lögheimili í Reykjanesbæ fá ókeypis lánþegaskírteini við 67 ára aldur. Öryrkjar og atvinnulausir með lögheimili í Reykjanesbæ fá einnig ókeypis skírteini gegn framvísun vottorða þar að lútandi.