Fréttir

Útilokar ekki gjaldþrot United Silicon
Fimmtudagur 16. nóvember 2017 kl. 15:56

Útilokar ekki gjaldþrot United Silicon

Arion banki hefur afskrifað 4,8 milljarða króna vegna kísilvers United Silicon í Helguvík. Þetta kemur fram á vef RÚV. Bankastjóri Arion banka segir að tapið sé stórt og það hafi verið rangt að lána til verkefnisins eftir á að hyggja.

Bankastjóri Arion banka, Höskuldur H. Ólafsson, segir að tapið sé stórt, þannig að út af fyrir sig sé hægt að segja að það hafi verið rangt að lána í þetta verkefni. Bankinn er sem stendur að borga starfsmönnum verksmiðjunnar laun, borgar raforkugreiðslur og annan kostnað. Höskuldur segir einnig að það sé ekki útilokað að félagið fari í þrot og að bankinn gangi þá að sínum kröfum. Verksmiðjan hafi verið sett í gang ókláruð og ljóst sé að það þurfi að setja verulega fjármuni í hana til að klára hana.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

United Silicon fékk rúmlega átta milljarða króna lánaða frá Arion banka, bankinn lagði þó ekkert hlutafé til fyrr en fyrirtækið var komið í mjög erfiða stöðu og kemur fram á vef RÚV að neikvæð áhrif vegna United Silicon nemi ríflega tveimur prósentum af eigin fé bankans og að niðurfærsla lána nemi innan við 0,4 prósentum af lánabók bankans. Nemi útistandandi skuldbinding um 5,4 milljörðum króna sem er um 0,5% af efnahag bankans en neikvæð afkoma Arion banka á síðasta ársfjórðungi skýrist að mestu af hrakförum United Silicon.