Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Föstudagur 22. mars 2002 kl. 11:55

Útideild Reykjanesbæjar: Hvernig er ástandið?

Starfsemi Útideildar Reykjanesbæjar á starfsárinu 2001 var nokkuð hefðbundin segir í skýrslu útideildar fyrir árið 2001. Ástandið á Hafnargötunni er nokkuð gott en það má segja að það miðbæjar vandamál sem var vel þekkt fyrir nokkrum árum sé hreinlega ekki til í dag. Það er s.s. ekki mikið um að krakkar séu að „hanga“ niður í bæ um helgar. Samkvæmt skýrslu Rannsóknar- og Greiningar um Hagi og líðan ungs fólks meðal nemenda í níunda og tíunda bekk árið 2000 í Reykjanesbæ, Gerðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi, Grindavík og Sandgerði. þá eru 55, 6 % foreldra sem leyfa eftirlitslaus partý. 60 % barna eru úti eftir miðnætti og 38 % barna úti eftir klukkan 03:00 samkvæmt sömu könnun. Vissulega höfum við í Útideildinni orðið vör við að krakkar séu úti eftir að útivistartíma lýkur en þó alls ekki í sama mæli og þær rannsóknir segja sem við erum að styðjast við. Það voru 50 skipti sem Útideild starfaði á árinu 2001 og höfð afskipti af 314 unglingum sem gerir 6,28 unglingur á hverja vakt. Mjög misjafnt er hvernig unglingar bregðast við er starfsfólk Útideildar hefur afskipti af þeim. Sumir hlaupa í burtu en aðrir spjalla við starfsfólkið eða þiggur far heim til sín. Unglingum er undantekningarlaust bent á að útivistarreglur hafi verið brotnar. Stundum hefur verið hringt í lögreglu til að leysa upp óæskilega hópamyndun. Í september 2001 voru tekin upp ný vinnubrögð að höfðu samráði við fagaðila. Þessi nýju vinnubrögð felast að mestu í því að ef unglingar eru úti eftir að gróf og ítrekuð brot á útivistarreglum hafa átt sér stað, er hringt í foreldra og þau beðin um að koma að sækja barnið sitt. Sem betur fer þá er ekki oft sem við þurfum að gera þetta en þó kemur það fyrir.

Hvað gerir Útideild Reykjanesbæjar?
Venjuleg vakt hefst um miðnættið og er mjög misjafnt hvort vakt er á föstudegi eða laugardegi. Vakt stendur yfir eins lengi og þurfa þykir. Fylgst er með öllum þeim stöðum sem líklegt er að unglingar komi saman t.d. grunnskólar, leikvellir, skrúðgarður og miðbærinn svo eitthvað sé nefnt. Einnig fáum við ábendingar frá krökkum, foreldrum og kennurum um hvar líklegt unglinga sé að finna. Einnig fer starfsfólk Útideildar inn á skemmtistaðina bæði í fylgd lögreglu og á eigin vegum. Ef unglingur er undir aldri þá er haft samband við lögreglu. Fyllt er út skýrsla um hverja vakt. Útideild er kynnt fyrir unglingunum og einnig fyrir foreldrum. Starfsfólk Útideildar fundar með
lögreglu, fjölskyldu- félagsþjónustu Reykjanesbæjar og forvarnar- og æskulýðsfulltrúa Reykjanesbæjar. Einnig fundar starfsfólk Útideildar á svokölluðum einkafundum með fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar og lætur vita ef einhverjir unglingar eru hugsanlega á rangri braut í lífinu. Starfsfólk Útideildar er duglegt við að fara á ráðstefnur og námskeið sem bjóðast til að auka þekkingu í starfi. Starfsfólk Útideildar hefur t.d. fengið þjálfun í sálgæslu og sjálfsvígsfræðslu þ.e. hvernig er mögulegt að greina áhættuþætti hjá ungu fólki í sjálfsvígshugleiðingum.

Útivistarátök
Á starfsárinu 2001 voru tvö útivistarátök í samstarfi við lögreglu, SamSuð, forvarnarfulltrúa og Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Í fyrra átakinu sem fór fram þann 30.8 sama dag og busaball N.F.S. voru fjögur ungmenni færð í athvarf Útideildar. Þar af tvær stúlkur sem höfðu komist inn á ballið. Í síðara átakinu sem fram fór þann 19.10 alls níu ungmenni færð í athvarf Útideildar. Það sem var athyglivert í þessu átaki var að það virðist vera vinsælt að læða sér út eftir að foreldrar eru farnir að sofa. Tveir unglingar af þessum þrettán voru ölvaðir. Tekinn er skýrsla af þeim unglingum sem eru færðir í athvarf og í framhaldi af því er hringt í foreldra þeirra og foreldrar beðnir um að koma og sækja börnin sín. Foreldrum er bent á mikilvægi þess að útivistartíminn sé virtur.



Hvenær er mesta hættan ?
Það voru tveir viðburðir á árinu sem áberandi mikið af unglingum var á ferli í Reykjanesbæ. Það er árshátíð grunnskóla Reykjanesbæjar og Ljósanótt í Reykjanesbæ. Útideild hafði afskipti af 52 ungmennum þessi tvö kvöld. Eitthvað var um ölvun og m.a. 12 ára gamalt barn var ölvað og fjarlægt af lögreglu.

Hvernig var staðan?
Útideild Reykjanesbæjar var stofnuð árið 1991og þá var ástandið frekar slæmt um helgar. Miðbærinn var fullur af unglingum og það var nánast hlegið af starfsfólki Útideildar þegar þeir gáfu sig á tal við krakkana. Spurningar eins og ,, Hvað kemur þér það við hvað ég sé lengi úti hljómuðu um alla Hafnargötuna?´´ Nú er öldin önnur og eins og áður hefur komið fram þá er miðbæjarvandinn leystur. Því ber að þakka nánu samstarfi lögreglu, Útideild, fjölskyldu og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, foreldrarölti og Reykjanesbær á réttu róli svo fátt eitt sé nefnt.

Framtíðin:
Samkvæmt nánast öllum rannsóknum þá eru forvarnarstarf hjá okkur á réttri leið en þó ber að hafa í huga að unglingar taka ekki mikið mark á hræðsluáróðri samkvæmt því sem dr Þórólfur Þórlindsson sagði á lokaráðstefnunni Ísland án eiturlyfja.
Við þurfum að efla markvissa forvarnarfræðslu á öllum stigum og samhæfa skilaboð allra sem þjóna, starfa og aðstoða börn og unglinga.
Margt hefur áunnist í forvarnarmálum í Reykjanesbæ en við getum alltaf gert betur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024