Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Útför Gísla Viðars frá Keflavíkurkirkju í dag
Föstudagur 30. september 2005 kl. 12:29

Útför Gísla Viðars frá Keflavíkurkirkju í dag

Gísli Viðar Harðarson, aðalvarðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, lést sl. fimmtudag, 46 ára að aldri. Útför hans verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin kl. 14.

Gísli lauk námi frá Gagnfræðaskóla Keflavíkur árið 1975 og lagði í framhaldi af því stund á nám í öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja á árunum 1981 til 1984. Gísli Viðar varð löggiltur sjúkraflutningamaður árið 1987 og löggiltur slökkviliðsmaður árið 1995. Hann hóf störf við sjúkraflutninga árið 1980 hjá Sjúkrahúsi Keflavíkurlæknishéraðs og Heilsugæslustöð Suðurnesja og starfaði þar til 1988 eða þar til Brunavarnir Suðurnesja tóku yfir flutningana. Hann fluttist þá þangað yfir. Gísli varð varðstjóri hjá BS árið 1991. Hann var skipaður aðalvarðstjóri frá mars 1998.

Gísli Viðar er mörgum Suðurnesjamönnum kunnur fyrir skyndihjálparnámskeið sín sem hann hefur kennt frá árinu 1981 og skipta þau í dag hundruðum. Störf hans fyrir Rauða Krossinn voru víðtæk og fjölbreytt, hvort sem var í félagsstarfi eða námskeiðum. Gísli Viðar var um tíma formaður Suðurnesjadeildar RKÍ. Gísli Viðar var mikill áhugamaður um mannúðar-, líknar- og björgunarmál. Þá heillaði flugið hann einnig en Gísli Viðar hafði einkaflugmannspróf. Gísli Viðar lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn.

Víkurfréttir áttu mikil og góð samskipti við Gísla Viðar í tengslum við störf hans hjá Brunavörnum Suðurnesja. Fyrir þau samskipti vilja blaðamenn Víkurfrétta þakka og senda öllum aðstandendum samúðarkveðjur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024