Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Út í umferðina
Sunnudagur 18. ágúst 2013 kl. 10:09

Út í umferðina

Börn á leið í skóla á ný

Skólar munu brátt hefja göngu sína með tilheyrandi umferð barna og foreldra, gangandi, hjólandi og akandi. Búast má við  að u.þ.b. 4.500 börn séu nú að fara í fyrsta skipti út í umferðina á leið til skóla. Fjöldi barna á grunnskólaaldri er yfir 40 þúsund. Vegna þeirrar hættu sem börnunum getur stafað af umferðinni vill Samgöngustofa biðja fjölmiðla um að vekja athygli á eftirfarandi atriðum. Þetta eru atriði sem brýnt er að foreldrar og börnin sjálf hafi í huga. Atriði sem geta skipt sköpum varðandi öryggi barnanna.

Barn sem er að byrja í skóla hefur ekki þroska eða reynslu til að átta sig á því sem skiptir máli að gefa gaum í umferðinni. Brýnum fyrir börnum að þó að þau sjái bíl þá sé ekki öruggt að bílstjórinn sjái þau.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Höfum í huga að við erum fyrirmyndir barnsins. Hvernig hegðum við okkur í umferðinni? Barnið lærir meira af því sem við gerum en því sem við segjum. Munum því að;  ganga aldrei á móti rauðu ljósi, nota alltaf viðeigandi öryggisbúnað, t.d. öryggisbelti, hjólreiðahjálma og endurskinsmerki.

10 góð ráð

Stysta leiðin í skólann er ekki alltaf sú öruggasta, miklu frekar leiðin þar sem sjaldnast þarf að ganga yfir götu. Þó aðstæður séu þannig að barnið geti gengið eitt í skólann er samt nauðsynlegt að fylgja því fyrstu dagana og fara vel yfir allar umferðarreglur.

Kennið börnum einfaldar og fáar reglur til að fara eftir. Þú þarft sjálfur að fara eftir þeim, að minnsta kosti þegar þið eruð á ferðinni saman.

Hér eru 10 góð ráð sem mikilvægt er að foreldrar hafi í huga og fræði börn sín um.

1.      Æfum leiðina í og úr skóla með barninu.

2.      Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki endilega stystu.

3.   Leggjum tímanlega af stað (flýtum okkur ekki). 

4.      Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið á að fara eftir.

5.      Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar.

6.      Verum sýnileg, notum endurskinsmerki.

7.      Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir.

8.      Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir.

9.      Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla.

10.  Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu.

Keyrð í skóla
Víða eru aðstæður þannig að aka verður barninu í skólann og skapar það mikla umferð í kringum grunnskólana. Nauðsynlegt er að gæta vel að því hvar barnið fer úr bílnum við skólann og stoppa ekki þar sem hætta getur skapast fyrir barnið og önnur börn. Því skal alltaf hleypt út þeim megin sem gangstéttin er, aldrei út á akbraut.