Urðunarstaður á Stafnesi snyrtur til
Framkvæmdir við frágang á aflögðum urðunarstað á Stafnesi ganga vel. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem teknar voru í gær er umtalsverð landmótun í gangi á Stafnesi.
Kadeco samdi við Vélaleigu A.Þ. sl vetur um að taka að sér lokun og frágang á aflögðum urðunarstað við Stafnes í Sandgerðisbæ. A.Þ. mun loka tveimur haugum, reisa varnargarð til að varna því að sjór nái til hauganna og fjarlægja rusl og snyrta umhverfi aflagðrar fjarskiptamiðstöðvar.
Samningurinn var gerður í kjölfar útboðs Kadeco þar sem þrettán aðilar buðu í verkið. Tilboð A.Þ. verktaka ehf hljóðaði upp á alls kr. 95.015.000. Eftirlit með verkinu er í höndum Verkfræðistofu Suðurnesja.
Hluti starfsemi bandaríkjahers fór fram á Stafnesi. Að loknum framkvæmdum verður búið að hreinsa ummerki um starfsemi hans.
Af hálfu Sandgerðisbæjar eru í mótun hugmyndir sem snúa að framtíðarnotkun og skipulagi svæðisins með tilliti til ferðamála og útivistarmöguleika.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson