Úr grjótinu í steininn: Meðvitundarlaus af áfengisdrykkju
Mikill viðbúnaður var í dag hjá lögreglu og sjúkraliði í Reykjanesbæ þegar tilkynnt var um meðvitundarlausan mann í grjótgarði við smábátahöfnina í Gróf. Þegar björgunarlið kom á staðinn kom hins vegar í ljós að meðvitundarleysið stafaði af áfengisdrykkju. Maðurinn mun hafa verið blautur í fæturna og legið á grúfu í grjótinu.
Manninum var komið á sjúkrabörur og inn í sjúkrabíl. Eftir að hafa fengið aðhlynningu sjúkraflutningsmanna var hins vegar tekin ákvörðun um það að flytja manninn úr grjótinu í steininn, þ.e. í fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum.
Maðurinn hafði engin skilríki meðferðis og ekki er vitað hver hann er. Það kemur ekki í ljós fyrr en maðurinn vaknar úr áfengisrotinu og hann fer að mæla á íslenska eða erlenda tungu. Enginn af sjúkraflutninga- eða lögreglumönnum á vettvangi kannaðist við manninn, sem er liðlega tvítugur.
Myndir:
Frá vettvangi við smábátahöfnina í Gróf í dag. Maðurinn var í grjótgarðinum við Café DUUS. Enginn veit deili á manninum sem var meðvitundarlaus af áfengisdrykkju og án skilríkja. Hann gistir nú fangageymslur og verður þar þangað til hann getur gert grein fyrir sér.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi