Uppsveifla í ferðaþjónstu
Kvikmyndatökulið frá þýsku sjónvarpsstöðinni, VOX, tók upp sjónvarpsþátt um ungt fólk á Íslandi í vikunni. Farið var víða um Reykjanesið og meðal tökustaða voru Bláa lónið, Kaffi-Duus, Hafnarberg, Gunnuhver á Reykjanesi og umhverfi Reykjanesvita. Ætlunin var að fara í hvalaskoðun en vegna veðurs varð að fresta sjóferðinni. Þátturinn er mjög góð kynning fyrir ferðaþjónustu á Reykjanesi.Leikarar í þættinum eru Suðurnesjafólk, Hanna Rún, Jóhanna og Andrés. Johan D. Jónsson, ferðamálafulltrúi Suðurnesja, var með í för og sagði að það væri alltaf að aukast að erlend tökulið færu á Reykjanesið til að búa til sjónvarpsefni af ýmsu tagi. „Ferðaþjónusta hefur sótt í sig veðrið á Suðurnesjum undanfarin átta ár, svo um munar. Gistinætur hafa t.a.m. rúmlega tvöfaldast á þessu tímabili og umferð ferðamanna hefur margfaldast. Er því orðið æ mikilvægara að standa vel að sameiginlegu markaðsstarfi fyrir svæðið sem eina heild“, sagði Johan D.