Uppsögn vakti hörð viðbrögð
- Karli með fötlun sagt upp hjá Landsbankanum
Uppsögn Guðmundar Ingiberssonar, starfsmanns útibús Landsbankans í Reykjanesbæ, vakti nokkuð hörð viðbrögð í vikunni. Guðmundur er með fötlun og starfaði á þjónustuborði bankans. Honum var sagt upp 18. janúar síðastliðinn og hætti hann samdægurs. Guðmundur hefur starfað við bankaþjónustu í um þrjátíu ár, fyrst hjá Sparisjóði Keflavíkur og hjá Landsbankanum í seinni tíð. Hann er Suðurnesjamönnum því vel kunnugur og ljóst að mörgum stendur ekki á sama um uppsögn hans. Óskar Húnfjörð sendi Víkurfréttum grein og mótmælti uppsögninni og var henni deilt víða á samfélagsmiðlum auk þess sem margir tjáðu óánægju sína með ákvörðun bankans.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum eru starfslokin hluti af breytingum sem eiga sér stað í útibúum um allt land. Á undanförnum árum hefur heimsóknum í útibú fækkað ört því um 80 prósent allra bankaviðskipta eru nú rafræn. Að sögn Einars Hannessonar, útibússtjóra Landsbankans í Reykjanesbæ, hefur bankinn þurft að mæta þessum breyttu aðstæðum með því að fækka starfsfólki. „Í mars 2011 sameinaðist Sparisjóður Keflavíkur Landsbankanum. Fjöldi starfsfólks í útibúinu var þá 52. Fimm árum síðar hefur þeim fækkað í 33. Verkefni í móttöku og afgreiðslu í útibúum hafa tekið miklum breytingum. Neysluvenjur fólks hafa breyst mikið og flestir nota netbankann og hafa samband með tölvupósti. Þeim fækkar í hverjum mánuði sem koma í útibúin og starfsemin hefur verið aðlöguð að því,“ segir Einar.
Þá bauð Landsbankinn Guðmundi aðstoð ráðningafyrirtækis við atvinnuleit og hefur gefið honum góð meðmæli. Að öðru leyti getur Landsbankinn ekki tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.
Spurt hefur verið hvort starfslokin samræmist samfélagslegri ábyrgð bankans. Í svari Landsbankans segir að hann hafi markað sér skýra stefnu hvað varðar samfélagslega ábyrgð. Starfslok séu aldrei auðveld og ávallt sé litið til margra þátta áður en erfiðar ákvarðanir eru teknar.
Guðmundur kveðst sár og reiður yfir uppsögninni og að hann hafi allra síst átt von á henni. Hann er nú að leita sér að öðru starfi. „Ég ætla að sjá hvort það sé möguleiki að fá aðra vinnu. Ég er bara að bíða og sjá og jafna mig á þessu. Ég var ekki undirbúinn fyrir þetta,“ sagði hann í samtali við Víkurfréttir.