Uppsöfnuð fasteignagjöld upp á 15 milljónir
Uppsöfnuð og ógreidd fasteignagjöld af Rammahúsinu nema um 15 milljónum króna, vegna áranna 2006, 2007 og 2008. Eins og fram kemur í frétt VF í morgun hefur meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkt að ráðast í kaup á einum þriðja hluta hússins fyrir 75 milljónir króna, við litla hrifningu minnihlutans. Ein af forsendum þess að ráðist er í kaupin eru vangreidd fasteignagjöld af eigninni.
Að sögn Böðvars Jónssonar, formanns bæjarráðs verða 70% kaupverðsins fjármögnuð með lántöku frá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Böðvar var inntur eftir því hvers vegna Fasteign ehf væri ekki kaupandi að eigninni og bæjarfélagið leigjandi, eins og verið hefur með flestar stærri fasteignir í bæjarfélaginu.
„Þróunarsjóður Reykjanesbæjar er kaupandi í þessu tilfelli. Sá háttur er hafður á þegar um er að ræða eignir sem verða ekki endilega í notkun Reykjanesbæjar til frambúðar. Dæmi um þetta er t.d. Hrannargata 2, Hafnargata 24, Njarðvíkurbraut 50-54 (Brynjólfshúsin) o.m.fl,“ segir Böðvar í svari sínu.
Tengdar fréttir:
Gagnrýna harðlega kaup bæjarins á Rammahúsinu