Uppsagnarbréf Jóhanns: Stöðugt erfiðara að ná endum saman
Sér ekki möguleika á að halda kostnaði innan fjárhagsáætlunar 2013 án þess að brjóta verulega á rétti barna í skólanum
Ágætu aðstandendur
Ég vil láta ykkur vita áður en það verður almannarómur að ég hef í dag sagt upp mínu ágæta starfi sem skólastjóri Holtaskóla.
Það er sárt að þurfa að gera þetta því ég hef ómælda ánægju af því að vinna með börnum ykkar, ykkur foreldrum og því frábæra starsfólki sem hér er. Til að skýra ástæðu uppsagnarinnar er hér texti uppsagnabréfs míns.
„Á undanförnum árum hafa fjárveitingar til skólastarfs Holtaskóla dregist saman ár frá ári. Stöðugt hefur verið erfiðara að ná endum saman og halda uppi gæðum í skólastarfinu. Fjárhagsárið 2012 var fjárhagsáætlunin þannig að mér tókst ekki að vera með reksturinn innan hennar. Áætlun ársins 2013 er þess eðlis að ég treysti mér ekki heldur til að reka skólastarfið fyrir þá upphæð sem þar er. Sorglegast er þó að sjá verulega skerðingu á fjárveitingum til Eikarinnar.
Ég sé því ekki möguleika á að halda kostnaði innan fjárhagsáætlunar 2013 án þess að brjóta verulega á rétti barna í skólanum sérstaklega þó þeirra sem þurfa á séraðstoð að halda. Á því vil ég ekki bera ábyrgð á.
Ég tel því rétt að ég gegni ekki starfi skólastjóra við þessar aðstæður.
Ég segi því upp starfi mínu sem skólastjóri Holtaskóla í Reykjanesbæ.
Uppsagnarfrestur minn er þrír mánuðir og miðast við næstkomandi mánaðamót.
Um starfslok mín er ég þó tilbúinn að ræða við fræðslustjóra ef þess verður óskað."
Ég vona að samstarf okkar verði áfram gott þann tíma sem ég á eftir í starfi.“
Bestu kveðjur
Jóhann Geirdal