Upplýsingavefur um sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí opnaður
Upplýsingavefur dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins um sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí næstkomandi hefur verið opnaður. Á vefnum, sem hefur slóðina www.kosning.is, eins og við aðrar kosningar, er að finna fróðleik og hagnýtar upplýsingar er lúta að framkvæmd kosninganna.
Á vefnum eru m.a. upplýsingar fyrir kjósendur, til dæmis um kosningarrétt, kjörgengi og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Einnig eru þar leiðbeiningar til frambjóðenda, til dæmis um frágang framboðslista, og til kjörstjórna og sveitarstjórna. Framboðslistar verða settir inn á vefinn jafnóðum og upplýsingar berast ráðuneytinu frá kjörstjórnum.
Þá eru á vefnum upplýsingar fyrir erlenda kjósendur sem eiga kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningarnar, á tíu tungumálum. Auk þess er þar að finna frétt um kosningarnar á táknmáli.
Senda má fyrirspurnir til ráðuneytisins um hvaðeina sem lýtur að framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna og ábendingar varðandi vefinn á netfangið [email protected].