Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Upplýsingamiðstöð
Þriðjudagur 22. júlí 2003 kl. 15:08

Upplýsingamiðstöð

Upplýsingamiðstöð Reykjaness var formlega opnuð í Bókasafni Reykjanesbæjar 10. maí s.l. Að rekstrinum standa Reykjanesbær og Ferðamálaráð Íslands. Meginhlutverk upplýsingamiðstöðvarinnar er að annast upplýsingagjöf um ferðamál á Reykjanesi. Í því felst að hafa aðgengilegar allar upplýsingar um þjónustu og viðburði á svæðinu, svara fyrirspurnum sem berast og vísa á rétta aðila og hafa á boðstólnum bæklinga um þjónustu á Reykjanesi og helstu upplýsingabæklinga um landið allt. Rannveig L. Garðarsdóttir starfsmaður Upplýsingamiðstöðvarinnar sagði í samtali við Víkurfréttir að mikið hefði verið um fyrirspurnir á netinu og í síma um áhugaverða staði, gistingu og hvaða afþreying er í boði á Reykjanesi frá því miðstöðin opnaði. „Einnig höfum við verið að leiðbeina ferðamönnum sem eru hér í stuttu stoppi og leita eftir afþreyingu og gistingu á svæðinu, sömuleiðis hefur það verið alhliða ráðgjöf við ferðamenn sem koma á staðinn“.Starfar Upplýsingamiðstöðin eingöngu fyrir Reykjanesbæ?
„Nei, hún er landshlutamiðstöð fyrir Reykjanes sem þýðir að hún á að þjóna öllum Suðurnesjunum, og hvernig til tekst byggist á góðu samstarfi við ferðaþjónustuaðila á svæðinu og ekki síður íbúa þess, og vil ég hvetja bæði fyrirtæki og íbúa svæðisins að nýta sér þessa þjónustu“.

Er mikilvægt að hafa slíka miðstöð í Reykjanesbæ?
Já, ég tel vera fulla þörf á því, það er auðveldara fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að ná til ferðamanna í gegn um okkur. Upplýsingamiðstöðin er fyrir alla, erlenda sem innlenda og ekki síst fyrir íbúa svæðisins sem fá hjá okkur allar upplýsingar um ferðamál í þessum landshluta.

Hvað er á döfinni hjá ykkur í sumar?
Við stefnum að því að merkja vel húsnæði og aðgengi að Upplýsingastöðinni og gera hana sýnilegri. Síðan mun Upplýsingamiðstöðin standa fyrir skoðunarferðum í öllum bæjarfélögunum á Reykjanesi í júlí og ágúst og hefur fengið til liðs við sig fólk úr hverju bæjarfélagi til að fræða okkur um viðkomandi staði. Þetta verða gönguferðir og öllum að kostnaðarlausu. Gengið verður um Reykjanesbæ, Grindavík, Sandgerði, Garð og Voga. Hvet ég Suðurnesjamenn að nýta sér þetta tækifæri til að kynnast sveitarfélögunum á svæðinu og nánasta umhverfi þeirra.

Dagskráin:
·Fimmtudaginn 24.júlí verður gengið með Sturlaugi Björnssyni um gömlu Keflavík. Mæting á Upplýsingamiðstöð Reykjaness kl. 20.00

·Mánudaginn 28. júlí verða Njarðvíkurnar skoðaðar í fylgd Áka Gränz
Mæting við Ytri-Njarðvíkurkirkju kl. 20.00

·Þriðjudaginn 29. júlí verður gengið með Halldóri Ingvarssyni um Grindavík
Mæting við verslunina Samkaup kl.20.00

·Þriðjudaginn 12. ágúst verður gengið um Garðinn með Ásgeiri Hjálmarssyni.
Mæting við Byggðasafnið í Garði kl.20.00

·Fimmtudaginn 14. ágúst ætlar Reynir Sveinsson að sýna okkur Sandgerði.
Mæting á veitingastaðnum Vitanum kl.20.00

·Mánudaginn 18. ágúst tekur Jón Borgarson á móti okkur í Höfnum.
Mæting við Kirkjuvogskirkju Höfnum kl.20.00

·Þriðjudaginn 19. ágúst verður Vogar og umhverfi skoðað í fylgd með Þorvaldi Erni Árnasyni og Höllu Guðmundsdóttur. Mæting við Sundmiðstöðina kl. 20.00

·Fimmtudaginn 21. ágúst verða útilistaverk í eigu Reykjanesbæjar skoðuð í fylgd Valgerðar Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa Reykjanesbæjar.
Mæting á Upplýsingamiðstöð Reykjaness kl. 20.00

Upplýsingamiðstöðin er staðsett í Bókasafni Reykjanesbæjar, í Kjarna, Hafnargötu 57
Sími 421 5155, netfang: [email protected]. Opið er virka daga frákl. 10 – 19 og laugardaga frá kl. 10 – 16 í sumar.

Mynd: Hulda og Rannveig, starfsmenn upplýsingamiðstöðvar Reykjaness.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024