Upplifi góðan anda meðal starfsfólks og nemenda
Halldóra Kristín Magnúsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur og tekur hún til starfa 1. maí nk. Hún hefur langa og farsæla reynslu af kennslu og stjórnun. Hér má lesa viðtal sem birtist við hana í nýjasta blaði Járngerðar, fréttabréfi Grindavíkurbæjar:
,,Hún hefur lokið meistaragráðu í kennslufræði með áherslu á matsfræði. Halldóra hefur sýnt mikið frumkvæði um skólaumbætur og hefur leitt þróunarstarf í skólum. Áhugi hennar á að leiða öflugt þróunarstarf er ótvíræður. Hvolsskóli, þar sem Halldóra hefur lengst starfað, hlaut Íslensku menntaverðlaunin sem forseti Íslands veitir, meðan hún var þar aðstoðarskólastjóri. Halldóra fær góð meðmæli og uppfyllir mjög vel öll skilyrði auglýsingar um menntunarkröfur og hæfni að því er fram kom í bókun fræðslunefndar.
Halldóra er nú aðstoðarskólastjóri Akurskóla í Reykjanesbæ. Hún segist hafa fylgst náið með nýjungum í menntamálum og verið virkur þátttakandi í umbótaverkefnum í skólastarfi. Einnig hefur hún tekið þátt í að skipuleggja fjölmörg námskeið fyrir starfsfólk skólanna, skipulagt náms- og kynnisferðir í samstarfi við aðra og kennt á nokkrum námskeiðum.
„Ég hef starfað sem aðstoðarskólastjóri um árabil og hef verið að bæta við mig menntun í stjórnun og skólaþróun samhliða starfinu. Mig hefur í nokkurn tíma langað til að takast á við það að stjórna skóla. Ég sá starf skólastjóra Grunnskólans í Grindavík auglýst og ákvað að sækja um starfið eftir að hafa skoðað skólann. Mér leist vel á aðstæður og upplifði góðan anda meðal nemenda og starfsfólks í báðum skólunum," segir Halldóra.
- Hvaða áherslur verða í skólastarfinu undir þinni stjórn?
„Ég legg áherslu á skólann sem lærdómssamfélag þar sem allir læra saman. Einnig legg ég áherslu á fjölbeyttar kennsluaðferðir, virkni nemenda, frjótt og skapandi skólastarf og gott samstarf heimila og skóla. Mér finnst mikilvægt að skapa samkennd um gott og metnaðarfullt skólastarf þar sem allir leggja sig fram um að gera vel. Ég vil leggja mig fram við að eiga gott samstarf við atvinnulífið og þá aðila sem starfa með börnum og unglingum í bæjarfélaginu. Skólinn þarf að þróast í takt við samfélagið og mikilvægt er að huga vel að náttúrunni."
Skýrsla með niðurstöðum úttektar Mennta- og menningarmálaráðuneytis á starfi skólans er væntanleg. Halldóra segir að skýrslan verði væntanlega góður grunnur til að byggja skólastarfið á til framtíðar.
„Í henni munu birtast helstu áherslur þeirra sem að skólanum standa og í honum starfa í dag. Í skýrslunni munu koma fram styrkleikar og veikleikar Grunnskóla Grindavíkur og væntanlega verða settar fram tillögur til úrbóta. Í skólastarfinu er mikilvægt að byggja á styrkleikunum og snúa sér að því að skoða þá þætti sem athugasemdir eru gerðar við, ef einhverjar eru. Skýrslan verður því leiðarvísir okkar inn í umbóta- og þróunaráætlun næstu ára," segir Halldóra.
Grunnskólinn í Grindavík er nokkuð fjölmennur og í tvískiptu húsnæði og þar hefur verið unnið eftir Uppbyggingastefnunni und-anfarin ár. Hvernig líst Halldóru á starfið og skólann?
„Mér líst vel á skólann og sé tækifæri í skólastarfinu. Heimasíðan er lifandi og þar kemur fram að í Grunnskóla Grindavíkur er verið að fást við marga skemmtilega hluti. Það að skólinn starfar í tvískiptu húsnæði hefur vænt-anlega einhverja ókosti en í því geta líka falist tækifæri. Ég legg áherslu á að skólastjóri verði með skrifstofu í báðum byggingunum til að tryggja yfirsýn og samskipti við nemendur og starfsfólk á báðum stöðum. Ég hef trú á hug-myndafræði Uppbyggingarstefnunnar og hef reynslu af að starfa í skóla þar sem svipuð upp-eldisstefna var höfð að leiðarljósi. Í skólum sem starfa eftir þessari stefnu er lögð áhersla á notalegt samfélag. Hegðunarstjórnun byggir á því að greina vandann og leita lausna hjá nem-endunum sjálfum. Reglur eru settar fram á jákvæðan hátt og mikið er unnið með sjálfsaga og sjálfstraust, svo nemendur læri að standa á eigin fótum og geti verið þeir sjálfir."
Þess má geta að Halldóra lék 2 A landsleiki í handbolta á sínum tíma með Val, einnig lék hún með Ungmennafélagi Selfoss og var í liði HSK á 4 landsmótum. Þá spilaði hún blak með Dímon íþróttafélagi í Rangárþingi eystra, kom á fót æfingum í blaki á Hvolsvelli 1980, fyrst fyrir UBH í Félagsheimilinu Hvoli og var formaður blakdeildar Dímonar frá 2000 - 2012.
„Ég er ókunnug hér í Grindavík en mér finnst bærinn bera það með sér að hér búi kraftmikið fólk. Ég hlakka til að takast á við skólastarfið í samstarfi við þá sem hér lifa og starfa," sagði Halldóra að lokum.
Halldóra er í sambúð með Unnari Þór Böðvarssyni fyrrverandi skólastjóra á Hvolsvelli og á hún tvær dætur.
Grindavik.is