Fréttir

Upplifði mannskæðan jarðskjálfta í Ekvador
Föstudagur 22. apríl 2016 kl. 14:11

Upplifði mannskæðan jarðskjálfta í Ekvador

„Það urðu allir virkilega hræddir þegar þetta var að gerast og öll fjölskyldan mín hljóp beint út á svalir,“ segir Markús Már Magnússon, 19 ára úr Reykjanesbæ. Hann er skiptinemi í Ekvador en þar varð jarðskjálfti af stærðinni 7,8 um síðustu helgi. Talið er að 480 manns hafi látist í skjálftanum sem er sá mannskæðasti þar í landi í áratugi.

Markús var á ferðalagi í bænum Babahoyo með fjölskyldunni sem hann býr hjá í Ekvador. „Við vorum heima hjá foreldrum „host mömmu minnar“ með allri fjölskyldunni þegar allt byrjaði að hristast óeðlilega mikið. Mér leist ekkert á að vera úti á svölum á tveggja hæða húsi. Ég var hræddur um að það myndi hrynja svo ég hljóp út eins fljótt og ég gat. Þegar jarðskjálftinn loksins hætti þá voru allir mættir út á götu að hringja í ættingja og vini og athuga hvort allt væri í lagi á öðrum stöðum í landinu. Það var mikið stress í gangi það kvöldið og ég var voðalega lítill í mér sjálfur og langaði helst ekkert að fara aftur inn í hús ef það yrði annar svona jarðskjálfti,“ segir hann.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þau fjölskyldan gerðu sér ekki grein fyrir því hve harður skjálftinn hafði verið fyrr en þau sáu sjónvarpsfréttir. Markús segir mörg hús hafa skemmst í bænum þar sem hann dvaldi um síðustu helgi og að nokkrir bæir séu nánast ónýtir.

Ekki var netsamband eftir skjálftann og því gat Markús ekki látið sína nánustu á Íslandi vita að hann væri heill á húfi fyrr en tveimur sólarhringum eftir skjálftann. „Þau urðu mjög áhyggjufull þegar þau lásu fréttirnar um jarðskjálftann og gátu ómögulega náð sambandi við mig. Það var ekki fyrr en á mánudagskvöldið, tveimur sólarhringum eftir skjálftann, að ég komst í símasamband og fékk þá hringingu frá fjölskyldunni á Íslandi. Þau voru ofboðslega fegin að heyra loksins í mér eftir þetta.“

Nú, nokkrum dögum eftir skjálftann, er enn verið að leita að fólki í rústum húsa í þeim bæjum sem fóru verst út úr skjálftanum. Markús segir mikla sorg ríkja í landinu. „Mikið af fólki missti allt sem það átti í jarðskjálftanum; húsin sín, allar eigur sínar og fjölskylduna sína. Mörg börn misstu foreldra sína og eiga hvergi heima núna þannig að þjóðin er að gera allt sem hún getur til þess að hjálpa þeim sem komu illa út úr jarðskjálftanum en þetta er voðalega erfitt á mörgum stöðum hérna og mikið sem þarf að gera til þess að allt komist í lag aftur.“ Bærinn Guaranda, þar sem Markús býr, varð ekki illa úti í skjálftanum og er nú verið að safna peningum, mat, vatni og öðrum nauðsynjum til að senda til fólks í neyð.