Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 Upphaf nýrri og betri tíma
Laugardagur 11. febrúar 2012 kl. 12:31

Upphaf nýrri og betri tíma

Nokkur hundruð grunnskólanemendur mættu í Stapann í vikunni til að kynna sér hin ýmsu störf sem eru í boði hér á Suðurnesjum og reyndar víðar líka. Verkefnastjórar úr stýrihópi um eflingu menntunar stóðu fyrir kynningunni og yfir 80 einstaklingar úr hinum ýmsu starfsgreinum kynntu störf sín. Þarna var hægt að kynna sér t.d. störf þyrluflugmanna, flugfreyja, blikksmiða, viðskiptafræðinga, fisktæknifræðinga og ökukennara, svo fátt eitt sé nefnt. Krakkarnir gengu á milli borða og spurðust fyrir og fengu upplýsingar um hin margvíslegu störf í samfélaginu. Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með áhuga unga fólksins og verkefnastjórarnir voru í skýjunum með viðbrögðin og mætingu nemendanna sem og frábæra þátttöku fulltrúa atvinnulífsins. Þeir voru sammála um það að það vantaði meiri starfskynningu í hinar ýmsu kennslugreinar, þ.e. að nemendur færu meira og ynnu í einhvern tíma við þá grein sem þeir væru að læra, á námstímanum. Miðað við hve vel þetta framtak gekk í fyrsta skipti hlýtur að vera markmiðið að hafa þetta að minnsta kosti árlegan viðburð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það er skemmtileg tilviljun að þessi starfskynningardagur hafi verið á sama degi og nýtt gagnaver var formlega gangsett á Ásbrú. Gagnaverið er fyrsta stóra atvinnuverkefnið sem fer í gang hér á Suðurnesjum eftir kreppu, eitt af mörgum á löngum lista yfir áhugaverð verkefni sem bíða eftir að komast í gang hér á svæðinu. Þetta gagnaver er einnig fyrsti áfangi í uppbyggingu á alþjóðlegri miðstöð gagnavera á Ásbrú sem verða knúin af endurnýjanlegum orkugjafa. Það er gaman til þess að vita að loksins var rokið, vindkæling okkar Suðurnesjamanna að arði því hún sparar mikið magn af orku í starfsemi gagnaversins.


Vonandi er dagurinn í gær, öflug starfskynning og formleg opnun græns gagnavers aðeins upphafið að nýjum og betri tíma fyrir okkur Suðurnesjamenn í atvinnumálum.


(Birt í Víkurfréttum 9. febrúar 2012)