Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Uppfærð líkön sýna áframhaldandi kvikusöfnun undir Svartsengi
Ljósmynd: Jón Steinar Sæmundsson
Mánudagur 5. febrúar 2024 kl. 16:42

Uppfærð líkön sýna áframhaldandi kvikusöfnun undir Svartsengi

Áfram taldar auknar líkur á kvikuhlaupi og eldgosi

Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram þótt aðeins hafi hægst á landrisinu þar síðustu daga. Svipað ferli átti sér stað fyrir kvikuhlaupin og eldgosin sem urðu í janúar 2024 og desember 2023. Samkvæmt nýuppfærðum líkönum sem byggja á gervitungla- og GPS gögnum sem ná yfir tímabilið frá 16. janúar til 5. febrúar er magn kviku undir Svartsengi nú metið um 9 milljón rúmmetrar. Áætlað er að um 9 – 13 milljón rúmmetrar hafi streymt frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þegar kvika hljóp þaðan og gaus nærri Hagafelli þann 14. Janúar. Því hefur áætlað magn kviku undir Svartsengi nú náð neðri mörkum af því magni sem talið er að hafi safnast þar fyrir síðasta eldgos. Áfram eru því taldar auknar líkur á kvikuhlaupi og eldgosi á næstu dögum eða vikum.

Frá því á föstudaginn hafa hátt í 200 jarðskjálftar mælst á svæðinu norðan Grindavíkur, flestir um eða undir 1 að stærð á 3-4 km dýpi. Stærsti skjálftinn varð að morgni sunnudagsins 4. febrúar við Sundhnúk og mældist 2,2 að stærð á tæplega 6 km dýpi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar vaktar svæðið áfram mjög náið og núverandi hættumatskort er áfram í gildi til kl. 15:00 þann 8. febrúar að öllu óbreyttu.

Bylgjuvíxlmynd sem sýnir landris á tímabilinu frá 23. Janúar til 4. febrúar 2024. Grá svæði á myndinni sýna svæði þar sem ekki var hægt að mæla landbreytingar vegna breytinga í snjóþekju á tímabilinu.