Uppbygging Suðurstrandarvegar að hefjast
Langþráð endurbygging Suðurstrandarvegar milli Grindavíkur og Þorlákshafnar er að hefjast. Vegagerðin hefur boðið út fyrsta kaflann en óvíst er um framhald verksins þar sem hluti fjárveitingar verður fluttur í mislæg gatnamót í Svínahrauni. Menn hafa lengi rætt um mikilvægi þess fyrir sjávarútveg að tengja hafnarbæina Þorlákshöfn og Grindavík með uppbyggðum, malbikuðum vegi en einnig fyrir ferðaþjónustu að fá tengingu frá Bláa lóninu um Krísuvík til Suðurlands. Hugmyndir um að byggja upp Suðurstrandarveg voru einnig talsvert ræddar í tengslum við breytingu á kjördæmaskipan en með hinu nýja Suðurkjördæmi runnu saman hluti Reykjaneskjördæmis og Suðurlandskjördæmi. Stöð 2 greindi frá þessu í kvöld.
Vegagerðin hefur nú boðið út fyrsta áfangann sem er sex kílómetra kafli næst Grindavík, nánar tiltekið frá Hrauni að Ísólfsskála. Kostnaður er áætlaður um 200 milljónir króna en verkinu á að vera að fullu lokið í júnímánuði árið 2006. Vegagerðin stefnir einnig að því bjóða út eins og hálfs kílómetra kafla næst Þorlákshöfn í vor en að öðru leyti er óvíst um framhald verksins. 140 milljónir króna sem ætlaðar höfðu verið í Suðurstrandarveg verða fluttar í Svínahraun vegna kröfu Ölfushrepps um að þar verði gerð mislæg gatnamót á mótum Þrengslavegar og Suðurlandsvegar. Það verk verður boðið út í janúar.
Myndin: Þegar Reykjanesbrautin var lögð steypu fyrir um þremur áratugum fóru menn Krísuvíkurleiðina til að losna við gjaldtöku. Nú verður sá vegur byggður upp milli Grindavíkur og Þorlákshafnar og kallaður Suðurstrandarvegur. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson