Uppbygging hýsingarmiðstöðvar hefst í Vogum í sumar
Skrifað var undir viljayfirlýsingu í gær milli Midgard hf og Sveitarfélagsins Voga um byggingu tölvuhýsingarmiðstöðvar í Vogum. Gert er ráð fyrir að byggja 11 hýsingareiningar á næstu árum auk þjónustubyggingar, samtals um 6.000 fermetra. Fyrsti áfangi verður tekinn í notkun fyrir lok ársins 2010 Um er að ræða fjárfestingu upp á 5 milljarða króna.
Verkefnið hefur verið í undirbúningi frá því í byrjun árs 2007 og er fjármögnun fyrsta áfanga nú lokið. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í sumar .
Fjárfesting vegna uppbyggingar í Vogum verður um 5 milljarðar króna gangi áætlanir eftir. Gert er ráð fyrir að um 25-30 tæknimenntaðir starfsmenn muni starfa beint við fullbyggða hýsingarmiðstöðina. Þá eru ótalin margfeldisáhrif verkefnisins sem gætu orðið talsverð.
Hýsingarmiðstöðin mun fá orku frá HS Orku á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir að orkunotkun muni aukast jafnt og þétt á næstu árum og að fullbyggð muni hýsingarmiðstöðin í Vogum þurfa um 10-12 MW.
Nú þegar er búið að ganga frá viðskiptasamningum sem munu tryggja rekstur fyrsta áfanga hýsingarmiðstöðvarinnar strax frá upphafi. Meðal þeirra fyrirtækja sem munu nýta sér þjónustu Midgard frá byrjun eru Orange Business Services og Basis ehf.
Í tilkynningu frá framkvæmdaaðila segir að Orange Business Services (OBS) sé hluti af France Telecom sem sé eitt af stærstu fjarskiptafélögum í heiminum með um 192 milljónir viðskiptavina. OBS veiti alþjóðlegum fyrirtækjum um heim allan þjónustu á sviði gagnatenginga og alhliða tölvuþjónustu. Gagnanet OBS nái yfir 220 lönd og sé OBS með formlega starfssemi í 166 löndum í fjórum heimsálfum. OBS sé leiðandi á sínu sviði í heiminum og hjá félaginu starfi um 30.000 starfsmenn.
Nefndar eru helstu ástæður fyrir staðarvalinu. Um sveitarfélagið liggi þrír ljósleiðarar og aðgengi að orku sé gott. Auk þess séu samgöngur eins og best verði á kosið og nálægðin við höfuðborgarsvæðið og alþjóðaflugvöllinn skipti sköpum, segir í tilkynningunni.
---
VFmynd/elg – Hörður Harðarson, formaður bæjarráðs, undirritar viljayfirlýsinguna ásamt Ægi Pálssyni og Jóni Ólafi Halldórssyni frá Miðgarði.