Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Uppbygging framundan í Grindavík
Laugardagur 11. júní 2022 kl. 09:26

Uppbygging framundan í Grindavík

– segir nýr meirihluti Sjálfstæðisflokk, Framsóknar og Raddar unga fólksins

Ný bæjarstjórn Grindavíkur hélt sinn fyrsta fund 7. júní þar sem málefnasafningur nýs meirihluta Sjálfstæðisflokk, Framsóknar og Raddar unga fólksins var kynntur.

„Kjörnir fulltrúar Framsóknar (B), Sjálfstæðisflokks (D) og Raddar unga fólksins (U) munu vinna sem ein heild og starfa saman í vinnu sinni fyrir Grindavíkurbæ,“ segir í bókun nýs meirihluta. Greint var frá skipan í nefndir, stjórnir og ráð. Forseti bæjarstjórnar verður frá B-lista fyrir utan þriðja árið verður fulltrúi U-lista. Formaður bæjarráðs verður frá D-lista.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Grindavíkurbær er í örum vexti með uppbyggingu í Hlíðarhverfinu sem verður nýjasta hverfi okkar Grindavíkinga. Rekstur bæjarfélagsins hefur gengið vel og eiginfjárstaða góð, samkvæmt áætlun munu þau metnaðarfullu verkefni sem eru í vinnslu nota þá fjármuni sem bæjarfélagið á. Það er fyrirséð að þó nokkur fólksfjölgun muni verða samhliða uppbyggingu Hlíðarhverfis og því nauðsynlegt að styðja við uppbyggingu innviða og þjónustustigs í Grindavík í samræmi við íbúafjölda. Þó þarf einnig að tryggja trausta fjármálastjórn og reyna að halda kostnaði á íbúa í lágmarki. Nýr meirihluti Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Raddar unga fólksins mun leiða metnaðarfull verkefni á næstu árum í góðu samstarfi við minnihluta og íbúa Grindavíkurbæjar. Grindavík er gott bæjarfélag, saman munum við hugsa til framtíðar og stefna hátt til að gera góðan bæ enn betri,“ segir m.a. í málefnasamningnum en meðal forgangsverkefna eru að þrýsta á afhendingaröryggi rafmagns og hringtengja Grindavíkurbæ og að öryggi vatnsbóla og að vatnsvernd verði með besta móti í Grindavík. Jafnframt verði leitast við að innleiða nýjungar í stjórnsýslu sem miða að því að auka skilvirkni og efla þjónustustig.

Ný bæjarstjórn Grindavíkur: Hjálmar Hallgrímsson, Ásrún Helga Kristinsdóttir, Birgitta H. Ramsay Káradóttir, Hallfríður G Hólmgrímsdóttir, Helga Dís Jakobsdóttir, Birgitta Rán Friðfinnsdóttir, Gunnar Már Gunnarsson var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Hulda Kristín Smáradóttir, varamaður.