Uppbygging álvers fer rólega af stað
Gert er ráð fyrir að uppbygging álvers fari rólega af stað og að efnahagslegra áhrifa fari ekki að gæta að ráði fyrr en 2009 og 2010. Að mati forráðamanna Norðuráls mun því framkvæmdin ekki vlda óæskilegri þenslu í samfélaginu og fjarri lagi sé að tala um hættu á kollsteypu.
Þetta kom fram á árlegu framkvæmdaþingi í Reykjanesbæ á miðvikudasg þar sem lagðar voru fram upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir í Reykjanesbæ og nágrenni.
Áætlað er að heildar kostnaður við fyrsta áfanga álvers Norðuráls í Helguvík verði 60-70 milljarðar íslenskra króna. Þar af er ríflega helmingur beinn erlendur kostnaður vegna kaupa á framleiðslubúnaði og tækni. Um 15% koma til vegna kaupa á byggingarefni og búnaði. Áætlað er að vinnulaun við framkvæmdir verði um 15% kostnaðar eða nærri 10 milljörðum á þriggja ára tímabili. Kostnaður vegna hönnunar, framkvæmdastýringar og eftirlits er áætlaður 6-7 milljarðar. Sá þáttur verður að langmestu leyti í höndum íslenskra aðila og mun verkefnið því skila íslenskum verkfræðistofum, arkitektum og fleiri þekkingarfyrirtækum verulegum tekjum á næstu árum. Annar kostnaður, s.s vegna flutninga, trygginga samningagerðar ofl. er áætlaður um 6 milljarðar.
Áformað er að hefja álframleiðslu í Helguvík síðla árs 2010 og að framleiðslugeta álversins verði þá um 150.000 tonn á ári.
Ágúst Hafberg, framkvæmdstjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, bendir á að um erlenda fjárfestingu er að ræða með tilheyrandi innstreymi gjaldeyris. “Til skemmri tíma eru þetta fyrst og fremst jákvæð skilaboð fyrir hagkerfið að fá erlenda fjárfestingu og gjaldeyri inn. Rólega til að byrja með og út þetta ár en svo af nokkrum krafti. Til lengri tíma kemur þetta verkefni á afar heppilegum tíma inn í hagkerfið eins og ýmsir hagfræðingar hafa nefnt undanfarið.”