Uppbygging á heilsusjúkrahúsi á Ásbrú
Stofnað hefur verið félagið Iceland Health. Félagið mun bjóða upp á sérhæfða heilbrigðisþjónustu og heilsutengda ferðaþjónustu á Íslandi fyrir fólk frá öðrum löndum. Starfsemin verður í húsnæði á Ásbrú sem áður hýsti spítala Varnarliðsins á Keflavíkurvelli og nálægum byggingum. Svæðið Ásbrú verður í forystu í uppbyggingu heilsuferðamennsku á Íslandi.
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Iceland Health ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu (e. Term Sheet) um að byggja sameiginlega upp heilsutengda starfsemi í sjúkrahúsi Kadeco á Ásbrú í Reykjanesbæ auk samnings um nýtingu á íbúðareignum.
Kadeco hefur undanfarin ár þróað hugmyndafræði heilsuþorps þar sem fyrirtæki tengd heilsu staðsetja sig á sama svæði og hafa samstarf á breiðum grundvelli.
Félagið Iceland Health mun stuðla að eflingu sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og heilsutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi. Boðið verður upp á liðskiptaaðgerðir og offituaðgerðir sem og endurhæfingu eftir þessar aðgerðir. Þá verður boðið upp á öfluga endurhæfingu fyrir hjartasjúklinga og atferlismeðferðir til meðferðar á offituvanda.
Leitað hefur verið til færustu sérfræðinga í Skandinavíu og Bretlandi í þeim meðferðum sem í boði verða. Þegar hefur verið gerður samningur við lykilaðila.
Faglegt ráðgjafaráð verður stjórn félagsins og framkvæmdastjórn til ráðgjafar. Í ráðgjafaráðinu sitja virtir sérfræðingar, Otto Nordhus brjóstholsskurðlæknir, Bjarni Semb hjartaskurðlæknir og Leif Ryd bæklunarskurðlæknir. Þá mun vera í ráðinu sérfræðingur á sviði offitu og endurhæfingar.
Viðskiptavinir Iceland Health verða einkum yfirvöld annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi eða stórar norrænar stofnanir sem eiga erfitt með að uppfylla skuldbindingar sínar við yfirvöld hvað varðar fjölda aðgerða/meðferða. Þá mun hluti þjónustuþega vera ríkisborgarar annarra ríkja Norðurlanda og Bretlands sem beðið hafa lengur en þrjá mánuði eftir læknismeðferð, sem þeir sannanlega þurfa á að halda.
Samfélagslegur ávinningur verkefnisins er mikill fyrir Íslendinga. Verkefnið er atvinnuskapandi. Í fyrsta áfanga verða til störf fyrir arkitekta og hönnuði, í kjölfarið á því fyrir verktaka við endurbætur á sjúkrahúsinu og loks fyrir heilbrigðismenntaða sérfræðinga sem munu starfa í nýja sjúkrahúsinu á Ásbrú. Verkefnið stuðlar að innflæði gjaldeyris í íslenskt efnahagslíf. Þá mun verkefnið styrkja ímynd Íslands sem land hreystis, fegurðar og heilsu.
Verkefnið gerir sjúkrahúsið á Ásbrú að kjölfestu framtíðaruppbyggingar á Heilsuþorpinu Ásbrú og verður jafnramt í forystu hvað snertir uppbyggingu á heilsuferðamennsku á Íslandi.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Iceland Health ehf. og Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar.