Unnu þrekvirki í nótt
Starfsmenn HS Orku og verktakar eru komnir langleiðina með að tengja nýju hjáveitulögnina við Njarðvíkurlögnina sunnanmegin (við varnargarðinn). Unnið var við báða enda lagnarinnar í alla nótt og ríkir bjartsýni um að það takist að hleypa heitu vatni á lögnina þegar líður á daginn eða kvöldið.
Báðum verkum hefur miðað ágætlega en hafa þó tekið nokkru lengri tíma en áætlað var, meðal annars þar sem lengri tíma tók að tæma lögnina af vatni. Þurfti að gata æðina til að flýta fyrir tæmingu. Fimbulkuldi var á svæðinu í nótt og fór frostið mest í fjórtán gráður. Aðstæður eru auk þess afar erfiðar við hraunjaðarinn norðanmegin og aðgengi torvelt.
Það eru tæknilausnir og stálsmiðjan Framtak sem sjá um smíði tenginganna og verktakafyrirtækið Ellert Skúlason sem sér um jarðvegsvinnu. Um tuttugu manns unnu í alla nótt að því mikilvæga verkefni að koma heitu vatni sem fyrst á aftur á Suðurnesjum.
Frá þessu er greint á Facebook-síðu HS Orku