Unnið hratt við að skipuleggja aukna vöktun á Reykjanesskaga
Verið að ráða fleiri náttúrvársérfræðinga til að sinna sólarhringsvakt
Vegna umræðu í tengslum við íbúafundi með Grindvíkingum í gær, virðist vera uppi sá misskilningur að Veðurstofan sé ekki með náttúruvársérfræðing á vakt á kvöldin og að næturlagi. Veðurstofa Íslands fjallar um málið í tilkynningu á vef sínum í dag.
„Því er mikilvægt að árétta að á sólarhringsvakt Veðurstofunnar er að öllu jafna tveir náttúrvársérfræðingar á vakt að degi til og einn náttúruvársérfræðingur á kvöldin og næturna sem vaktar allt landið, auk bakvaktar. Það fyrirkomulag hefur verið til staðar um árabil á Veðurstofunni. Í stórum atburðum fjölgar Veðurstofan sérfræðingum á sólarhringsvakt tímabundið svo að eftirlit væri fullnægjandi hvað varðar viðbragðstíma.“
Ráðuneyti Veðurstofunnar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Guðlaugur Þór Þórðarsson ráðherra, samþykkti 15. nóvember síðastliðinn ráðningu í átta ný stöðugildi sérfræðinga til að takast á við þær áskoranir sem birtast okkur á Reykjanesskaga og fyrirséð að munu halda áfram næstu árin. Stöðurnar voru auglýstar 20. nóvember og verið er að vinna úr umsóknum. Stöðugildin munu sérstaklega nýtast í vöktun og samtúlkun gagna í jarðskjálfta- og eldgosavá.
Unnið er hratt að því að skipuleggja vöktun og innleiða nauðsynlegar breytingar í eftirlitskerfum Veðurstofunnar til að fullnægja kröfum hvað varðar viðbragðstíma. Eins og áður hefur komið gerbreytti atburðarrásin og umfang umbrotanna 10. nóvember forsendum Veðurstofunnar fyrir umfangi vöktunar Grindavíkur og Svartsengis gagnvart eldgosavá.
Viðbragðsaðilar þurfa svo að skoða og meta fjölmarga þætti sem hafa áhrif á þá ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti Grindvíkingar geta snúið heim, segir í tilkynningu Veðurstofu Íslands.