Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Unnið af krafti með stofnunum og ríki að úrræðum
Mánudagur 31. ágúst 2020 kl. 21:10

Unnið af krafti með stofnunum og ríki að úrræðum

„Nú þegar rúmlega 200 manns í viðbót er sagt upp í hópuppsögnum hér á svæðinu setur mann hljóðan. Þó ekki þannig að úr mér sé allur þróttur, síður en svo. Bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ taka stöðuna mjög alvarlega og þó svo tekjufall blasi við hjá bæjarfélaginu verður unnið af krafti með stofnunum og ríki að úrræðum,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, í pistli sem hann skrifar á Facebook.

„Það er flókið og erfitt að taka ákvarðanir á sviði sóttvarna þegar við eigum í höggi við veiru sem þessa. Þar ætla ég ekki að setjast í dómarasæti. Það sem aftur á móti skiptir máli er að virkja kerfið, samvinnu og kraftinn sem kemur til með að milda höggið hér á svæðinu, þar spila ríki og sveitarfélög stórt hlutverk sem stendur. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikilvægt er að forgangsraða í átt að velferðarkerfinu, opna leiðir til virkni fyrir þá sem missa vinnuna og bjóða sem flestum sem ætla sér í nám velkomna inn í skólakerfið. Það er góð fjárfesting við þessar aðstæður. 

Reykjanesbær hefur óskað eftir því að opnað verði fyrir þann möguleika að ráða starfsmenn strax af atvinnuleysisskrá og framlag sem ella færi í atvinnuleysisbætur komi upp á móti launakostnaði. Þannig væri hægt að koma á fót ýmsum umbótaverkefnum við þessar aðstæður sem hagur væri af til lengri tíma, bæði fyrir þá sem missa vinnuna og samfélagið í heild. Hvernig við bregðumst við núna mun hafa afgerandi áhrif á það hversu hratt og vel við náum flugi á ný,“ segir Jóhann Friðrik í pistlinum.