Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Unnið að viðbragðsáætlunum fyrir allar stofnanir bæjarins
Föstudagur 14. desember 2012 kl. 09:33

Unnið að viðbragðsáætlunum fyrir allar stofnanir bæjarins

Starfsmenn Grindavíkurbæjar vilja taka vinnuvernd fastari tökum meðal annars með vel skipulögðum viðbragðsáætlunum í öllum stofnunum bæjarins. Þetta kom skýrt fram á sameiginlegum starfsmannafundi hjá Grindavíkurbæ í haust.

Í framhaldi af þessu hefur Ásmundur Jónsson slökkviliðsstjóri ásamt skólastjórnendum unnið að handbók um viðbragðsáæltun fyrir grunnskólann, bæði á Ásabraut og Hópsskóla, vegna bruna, slysa og náttúruhamfara. Verkefnisstjóri skólans er Pálmi Ingólfsson. Þar er farið ítarlega yfir staðhætti, skilgreiningar, boðun, stjórnkerfi, starfssvæði, verkefni viðbragðsaðila, skipulag fjarskipta, kort, dreifingalista og ýmsar aðrar upplýsingar sem koma að gagni.

Í tengslum við þessa vinnu voru haldnar rýmingaáætlanir í grunnskólanum við Ásabraut og Hópsskóla fyrir skömmu. Búið var að undirbúa starfsfólk og nemendur og gekk æfingin sem slík mjög vel á báðum stöðum. Um leið og brunaboð kom og bjöllur glumdu voru nemendur komnir skipulega út úr skólunum eftir um þrjár mínútur og slökkviliðið kom skömmu seinna og fór í vettvangsferð inn í skólana. Á meðan fóru nemendur skipulega inn á sparkvellina við grunnskólana.

Ásmundur segir að æfingarnar hafi tekist vel. Viðbragðsáætlunin er í smíðum og búist við að hún verði tilbúin fljótlega á næsta. Þar kemur m.a. skýrt fram hlutverk starfsmanna í slíkum viðbragðsáætlunum. Næsta skref er að undirbúa svipaðar handbækur um viðbragðsáætlanir fyrir aðrar stofnanir bæjarins.

„Þetta er vinna sem var í undirbúningi en niðurstöður starfsmannafundarins hafa gert það að verkum að við fórum á fullt í að vinna handbókina fyrir grunnskólann enda stærsta stofnun bæjarins. Það er fagnaðarefni hversu starfsfólk grunnskólans og annarra stofnana bæjarins er umhugað um viðbragðsáætlanir og öryggismál," sagði Ásmundur að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024