Unnið að því að fjölga faglærðum þjónum og matreiðslumönnum
Mennta- og Menningarmálaráðuneytið hefur veitt Bláa Lóninu styrk til vinnustaðanáms fyrir 8 nemendur í 24. vikur.
Um er að ræða styrki til fyrirtækja eða stofnana sem taka nemendur í vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað á grundvelli aðalnámskrár framhaldsskóla.
Þetta er í fyrsta skipti sem hið opinbera styrkir fyrirtæki eða stofnanir fjárhagslega til þess að taka við nemendum og er vonast til þess að þetta muni greiða fyrir því að starfsnáms-nemendur geti lokið tilskilinni starfsþjálfun á vinnustað.
Magnús Héðinsson, yfirmaður veitingasviðs Bláa Lónsins, segir styrkinn vera mjög hvetjandi fyrir greinina. „Vöxtur í ferðaþjónustunni skapar mikil tækifæri fyrir veitingageirann og aukinn starfstækifæri fyrir fólk sem vill hasla sér völl á þessu sviði. Mikilvægt er að fjölga menntuðum þjónum og matreiðslumönnum og auka þannig gæðin í greininni. Við hjá Bláa Lóninu stefnum að því að vera með 4 þjónanema og 10 kokkanema á næsta ári,“ segir hann.