Unnið að aðgerðaáætlun gegn hávaða í Reykjanesbæ
Reykjanesbær er nú með í auglýsingu aðgerðaáætlun gegn hávaða, samkvæmt reglugerð um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir. Með auglýsingunni og birtingu aðgerðaáætlunarinnar gefur Reykjanesbær bæjarbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að gera skriflegar athugasemdir við áætlunina innan fjögurra vikna frá birtingu. Gerð verður samantekt um samráðið þar sem fjallað verður um athugasemdir sem bárust og hvernig brugðist var við þeim. Lokadagur til að skila inn athugasemdum er til 25. ágúst 2019. Senda skal athugasemdir á netfangið [email protected]. Þetta kemur fram á vef Reykjanesbæjar
Tilskipun Evrópusambandsins um umhverfishávaða var innleidd á Íslandi með reglugerð um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir. Samkvæmt reglugerðinni skal m.a. kortleggja hávaða við flugvelli með meira en 50.000 flughreyfingar á ári og hávaða frá stórum vegum með ársdagsumferð yfir 8.000 ökutæki. Komi í ljós við kortlagningu að hávaði er yfir umhverfismörkum skal vinna aðgerðaráætlun með það að markmiði að draga úr hávaða.
Árið 2017 var hávaði frá Reykjanesbraut og Keflavíkurflugvelli kortlagður af Eflu verkfræðistofu, fyrir hönd Vegagerðarinnar og Isavia, í samræmi við framangreinda reglugerð. Greinargerð ásamt hljóðkorti var í framhaldi skilað til Umhverfisstofnunar
Þar kemur fram að hávaði frá flugvellinum er alls staðar innan lögbundinna umhverfismarka en á nokkrum afmörkuðum svæðum er hann farinn að nálgast viðmiðunarmörk og því þótti rétt að ráðast í gerð þessarar aðgerðaráætlunar. Hún er unnin fyrir Reykjanesbæ, Isavia og Vegagerðina.
Nánar má lesa um málið hér og nálgast tengla á gögn.