Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

United Silicon ætlaði að nota „bestu fáanlegu tækni“
Í fyrstu var litið svo á að um byrjunarörðugleika væri að ræða. Fátt bendir til þess að umtalsverðar umbætur hafi orðið. VF-mynd/hilmarbragi
Fimmtudagur 23. febrúar 2017 kl. 15:58

United Silicon ætlaði að nota „bestu fáanlegu tækni“

- Búnaður verksmiðjunnar annar ekki mengun - Tvö frávik skráð í síðustu eftirlitsferð

Áætlað var að notast við „bestu fáanlegu tækni í lofthreinsibúnaði“ og bestu fáanlegu loftsíur, samkvæmt matsskýrslu kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Því átti hreinsun kísilverksmiðjunnar að verða um 2,5 til 5 sinnum betri en kröfur um rykhreinsun sem settar eru fram í starfsleyfum málmframleiðslufyrirtækja á Íslandi. Í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi fyrirtækinu í gær segir að í ljós hafi komið við eftirlit að búnaður verksmiðjunnar hafi ekki annað þeirri mengun sem af starfseminni hlýst og að reykur hafi sýnilega borist ítrekað óhreinsaður frá ofnhúsi. Þá sé engin umfjöllun um lyktarmengun í matsskýrslu og því hægt að draga þá ályktun að ekki hafi verið gert ráð fyrir að starfsemin hefði í för með sér lyktarmengun. Síðan framleiðsla hófst í verksmiðjunni síðasta haust hefur ítrekað borist þaðan reyk- og lyktarmengun yfir svæðið í kring.

Fjallað er um hráefnin sem notuð er til framleiðslunnar í matsskýrslunni, og segir að rétt hráefni séu lykillinn að góðri kísilframleiðslu og muni fyrirtækið verja miklu fé til að fá rétt og góð hráefni fyrir verksmiðjuna. Þar segir að mjög hreint kvars verði flutt inn til landsins frá hreinustu námum í heiminum. Einnig að kol verði flutt inn og komi þau sömuleiðis frá hreinustu námum í heimi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í bréfi sínu ítrekar Umhverfisstofnun að ekki hafi verið gerð grein fyrir mögulegri lyktarmengun í umsókn United Silicon um starfsleyfi og því séu ekki heimildir til lyktarmengunar í starfsleyfinu. Þá segir í bréfinu að samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar sé lyktarmengun almennt ekki vandamál við rekstur hjá kísilverksmiðjum.

Fjölmargar kvartanir um lyktarmengun hafa borist til Umhverfisstofnunar frá íbúum á svæðinu. Í bréfinu er bent á að í fyrstu hafi verið litið svo á að um byrjunarörðugleika væri að ræða. „Fátt bendir til þess að umtalsverðar umbætur hafi orðið,“ segir í bréfinu.

Lyktar- og reykmengun barst frá kísilverksmiðjunni á miðvikudag og fimmtudag í síðustu viku. Í kjölfarið fóru fulltrúar Umhverfisstofnunar í fyrirvaralaust eftirlit þangað á föstudeginum. Í þeirri ferð voru greind tvö frávik frá starfsleyfi. Annars vegar að reykhreinsivirki annaði ekki reyk sem myndaðist í ofni verksmiðjunnar. Í grein 2.3 í starfsleyfi segir að engar rykuppsprettur megi vera án virkra mengunarvarna sem uppfylla kröfur um bestu fáanlegu tækni. Hins vegar var greint frávik tengt hönnun og rekstri verksmiðjunnar sem á að miðast við að halda rykmengun og annarri mengun niðri. Í skýrslu Umhverfisstofnunar um eftirlitsferðina segir að ólykt teljist til mengunar og að ráðstafanir við rekstur nægi ekki til að koma í veg fyrir hana.

Í athugasemd frá Umhverfisstofnun til United Silicon segir að bæta þurfi upplýsingaflæði innan verksmiðjunnar en ekki varð ljóst að lyktarmengun að kvöldi 15. febrúar hafi orðið vegna ofnstopps fyrr en síðdegis daginn eftir. Stofnunin hefur óskað eftir rafrænni skrá yfir ofnstopp og gagnsetningar frá byrjun reksturs.

[email protected]