Ungur drengur kveikti eld í Akurskóla
Snör handtök starfsfólks í Akurskóla í Reykjanesbæ komu í veg fyrir alvarlegt tjón þegar eldur í ruslatunnu inni í skólanum var slökktur nú síðdegis. Innan veggja skólans er rekin deild frá leikskóla og þar hafði ungur drengur borið eld að ruslatunnu. Tunnan brann og allt sem í henni var.
Það voru starfsmenn í húsinu sem hringdu á slökkviliðið, en brunaviðvörunarkerfi í skólanum fór ekki í gang við brunann. Sjálfvirkt slökkvikerfi er í loftum yfir þeim stað þar sem eldurinn kom upp og það hefði örugglega slökkt eldinn ef hann hefði orðið meiri, segir Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja. Til þess kom þó ekki, þökk sé skjótum viðbrögðum starfsfólks í skólanum.
Slökkviliðsmenn komu á staðinn og reykræstu bygginguna.
Myndir: Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja mætt á staðinn. Tunnan brann og allt sem í henni var.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson - [email protected]
.