Ungur drengur áreittur kynferðislega í sundmiðstöðinni
Karlmaður á fertugsaldri í farbanni.
Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn fyrir kynferðislega áreitni við ungan dreng í Sundmiðstöð Keflavíkur í sl. viku. Málið er til rannsóknar hjá Rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurnesjum.
Maðurinn sem er íslenskur en býr ekki á Suðurnesjum hafði komið úr millilandaflugi. Hann verið nokkra stund á svæðinu, í heitum pottum og síðan í gufu sundmiðstöðvarinnar þar sem hann áreitti drenginn á kynferðislegan hátt. Drengurinn hafði verið með fleiri vinum sínum á sundæfingu og síðan í heitu pottunum og gufunni. Félagar drengsins fóru út úr gufunni á undan honum og þá áreitti maðurinn hann þegar þeir voru tveir þar inni. Drengurinn hljóp út úr gufunni og tilkynnti atburðinn til starfsmanna sundmiðstöðvarinnar. Þeir kölluðu til lögreglu en tóku manninn afsíðis og héldu honum þar, þangað til hún kom á staðinn.
Samkvæmt heimildum VF var maðurinn undir verulegum áhrifum áfengis þó það sæist ekki mikið á honum og í fórum hans fannst bjór. Fólk í lauginni var slegið yfir atburðinum en drengurinn sem stundar sundæfingar þar var í miklu uppnámi eftir atburðinn. Starfsfólk þótti taka faglega og fumlaust á málum.
Lögreglan tók skýrslu af manninum og í framhaldi var óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir honum. Því var hafnað en gefið út farbann á hann. Rannsókn er í fullum gangi.