Fréttir

Ungmenni játuðu íkveikju í geymsluhúsnæði í Sandgerði
Fimm ungmenni játuðu að hafa farið inn í geymsluhúsnæði í eigu Sandgerðisbæjar fyrr í mánuðinum og kveikt í því.
Miðvikudagur 18. maí 2016 kl. 06:00

Ungmenni játuðu íkveikju í geymsluhúsnæði í Sandgerði

Munir, tæki og hús gjöreyðilögðust

Lögreglan á Suðurnesjum handtók fimm ungmenni í lok síðustu viku sem höfðu orðið uppvís að því að hafa verið kveikt í, framið innbrot og önnur spellvirki. Ýmist voru ungmennin tvö eða þrjú úr hópnum saman að verki. Ungmennin eru á aldrinum 17 til 20 ára og hafa játað að hafa farið inn í geymsluhúsnæði í eigu Sandgerðisbæjar aðfaranótt sunnudagsins 8. maí og kveikt í því. Munir, tæki og húsið sjálft gjöreyðilögðust í eldinum.

Þá brutust ungmennin inn í húsnæði Nesfisks og unnu þar miklar skemmdir. Húsgögn, hillur og eldhústæki höfðu verið brotin og tölva og loftpressa, sem heldur vinnslunni gangandi, skemmdar. Einnig hafði olíu verið hellt yfir gaskúta í húsnæðinu. Loks var brotist inn í gróðrarstöð í Sandgerði og einnig áhaldahús Sandgerðisbæjar og skemmdir unnar á báðum stöðum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sum ungmennanna eru ekki orðin 18 ára og voru foreldrar þeirra því viðstaddir skýrslutökur lögreglu. Þá verður athæfi þeirra tilkynnt barnaverndarnefnd.