Ungmennaráð vill veita systkinaafslátt í íþróttum
Ungmennaráð Reykjanesbæjar hitti bæjarstjórn Reykjanesbæjar í annað sinn.
Ungmennaráð Reykjanesbæjar hefur nú verið starfrækt í tæpt ár. Í ráðinu eru fulltrúar frá hinum ýmsu félagasamtökum og hópum ásamt fulltrúum úr menntakerfinu. Á fundi með bæjarstjórn Reykjanesbæjar á dögunum ýsti ráðið yfir mikilli ánægju með nýja strætókerfið í Reykjanesbæ og einnig var það haft á orði að almenn ánægja væri með þá staðreynd að ungmennaráð væri starfandi í bæjarfélaginu. Hvöttu ungmennin forsvarsmenn Reykjanesbæjar til að útbúa kynningarrit um starfsemi ráðsins.
Æfingagjöld í íþróttum eru allt of há að mati ráðsins og algerlega óskiljanlegt að ekki skuli veittur systkinaafsláttur milli deilda íþróttafélaganna. Ráðið óskaði einnig eftir lengdum opnunartíma í Sundmiðstöðina um helgar í sumar og að kannað yrði hvort mögulegt væri að hafa sundlaugina í Akurskóla eitthvað opna fyrir almenning.
Íþróttadagur í Reykjanesbæ, þar sem nemendur í öllum grunnskólunum myndu keppa í margvíslegum íþróttagreinum og dagurinn myndi svo enda í Sundmiðstöðinni, var ein af tillögum ráðsins. Áhersla var líka lögð á það hjá unglingunum að vera með kynningu á fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi í Reykjanesbæ.
Ungmennaráð hafði miklar áhyggjur af götuleikhúsi Vinnuskólans en meðlimir hafa fengið spurnir af breytingum á þeirri starfsemi og lögðu mikla áherslu á að götuleikhúsinu verði ekki breytt.
Í svörum Árna Sigfússonar bæjarstjóra varðandi systkinaafsláttinn kom fram að hvatagreiðslur yrðu settar á að nýju næsta haust og það myndi hjálpa eitthvað til. Bæjarstjóri fól Stefáni Bjarkasyni framkvæmdarstjóra ÍT sviðs að kanna möguleika á auknum opnunartíma í Sundmiðstöðinni um helgar og einnig að hafa samband við fræðslusvið bæjarins varðandi það að hafa íþróttadag í grunnskólunum. Að auki ræddi Árni um fyrirhugaðan ungmennagarð sem er í mótun við 88 Húsið. Allir ræðumenn Ungmennaráðs lýstu mikilli ánægju með þá hugmynd.
Guðný Kristjánsdóttir upplýsti að hugmyndin með götuleikhúsið væri sú að flytja þá starfssemi í Frumleikhúsið, því þar myndu krakkarnir læra að umgangast leikhúsið og alla þá ábyrgð sem því fylgir, hefðu aðgang að leikmunum og búningum. Hún tók undir áhyggjur ráðsins að það ætti að fækka þátttakendum í götuleikhúsinu niður í tíu ungmenni og aðeins einn umsjónarmann og sagði mikilvægt að miklu fleiri kæmust að. Hún lagði jafnframt áherslu á að hópurinn hefði miklar skyldur s.s. að vinna eftir hádegi á föstudögum þegar aðrir í Vinnuskólanum eru í fríi og að sjá um skemmtiatriði t.d. á 17. júní og Ljósanótt.
Böðvar Jónsson fór yfir hvað ráðið hefði áorkað m.a. átt stóran þátt í bættu strætókerfi, hitt forsvarsmenn Skólamatar og stuðlað að nýju bardagahúsi og að allt skipti þetta miklu máli.
Magnea Guðmundsdóttir fagnaði áherslum ráðsins í umhverfismálum og minnti jafnframt á grænan apríl og hreinsunarátak í Reykjanesbæ.
Allir bæjarfulltrúar lýstu yfir ánægju með störf ráðsins og var fráfarandi meðlimum þökkuð góð störf. Framundan er lokahátíð Ungmennaráðs og kosning í nýtt ráð.