Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ungmennaráð vill fleiri ruslafötur og meiri fræðslu um andlega heilsu 
Frá fundi ungmennaráðs Reykjanesbæjar.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 14. október 2021 kl. 11:36

Ungmennaráð vill fleiri ruslafötur og meiri fræðslu um andlega heilsu 

Ungmennaráð Reykjanesbæjar hvetur bæjarfélagið að auka úrval bóka á bókasafni fyrir unglingaaldurinn þrettán til átján ára og segir það vera mjög lítið. Þetta kemur fram í fundargerð frá fyrsta fundi ráðsins á nýju skólaári sem haldinn var 1. október. Þar þakkar ráðið fyrir nokkra þætti en bendir einnig á fjóra einfalda hluti sem það telur að Reykjanesbær gæti gert strax til að þjónusta ungmenni betur.

Þessir fjórir þættir sem ungmennaráð telur að að hægt væri að gera núna eru að auka úrval bóka á bókasafninu, fjölga ruslatunnum í bænum, m.a. við skóla, leikvelli og við Fjörheima/88 húsið. Þá vill ráðið sjá skólana bjóða oftar upp á meiri fræðslu um andleg veikindi og andlega heilsu. Ráðið er einnig með áhugaverða ábendingu um að of margar nýbyggingar í bæjarfélaginu væru gráar eða hvítar. „Sum hverfi í bænum eru alltof einsleit. Ungmennaráðið vill hvetja Reykjanesbæ til að fjölga byggingum með listveggjum. Einnig má lífga upp á Hafnargötuna með litríkum litum og skemmtilegri lýsingu,“ segir í fundargerðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá bendir ráðið á fjögur lykilatriði sem  nauðsynlegt sé að breyta til að tryggja að öll börn og ungmenni fái jöfn tækifæri. Í fyrsta lagi að samræma skólalóðir og þær allar verði endurbættar í samræmi við skólalóðina við Stapaskóla sem ungmennum finnst frábær. Í öðru lagi telur ráðið að endurskoða þurfi aðgengi nemenda að hjúkrunarfræðingum í skólum. Í þriðja lagi að fá fleiri félagsmiðstöðvar, m.a. í Innri-Njarðvík. Í fjórða og síðasta lagi er ungmennaráð ósátt við nýtt strætókerfi og bendir á að ungmenni í Innri-Njarðvík og Ásbrú telja þjónustuna ekki nógu góða. 

Ungmennaráð er alls ekki ósátt með alla hluti og ræddi á fundi þess hvar Reykjanesbæjar er að standa sig vel í málefnum ungmenna. Þar er bent á hvatagreiðslurnar sem séu háar miðað við mörg önnur sveitarfélög og hvetur Reykjanesbæ að halda áfram á sömu braut í þeim efnum. Ráðið er ánægt með vinnu starfsfólks Fjörheima en hvetur til þess að bæta við opnunum fyrir 7. og 10. bekk. Þá er ráðið afar ánægt með skólalóð Stapaskóla og eins vel heppnaðar framkvæmdir í Sundmiðstöð/Vatnaveröld og lengri opnunartíma til bóta. Telja þó að hægt sé að gera enn betur og að opnunartími verði lengdur til samræmis við sundlaugar í Reykjavík.

„Ungmennaráðið hlakkar mjög til að ræða þessa hluti við bæjarstjórn í nóvember og vinna saman að breytingum til góðs,“ segir í lok fundargerðinnar.