Ungmennaráð fær áheyrnarfulltrúa í ráð og nefndir
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar lagði fram tillögu um að gera ungmennaráð meira gildandi í nefndum og ráðum sveitarfélagsins
Tillaga í bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að bjóða ungmennaráði Reykjanesbæjar að tilnefna áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á fundi nefnda og ráða sveitarfélagsins; annarra en barnaverndarnefndar, var borin upp af Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra, á fundi bæjarstjórnar 4. janúar. Samþykkt var af öllum bæjarfulltrúum að vísa tilllögunni til bæjarráðs.
Um tilraun verði að ræða sem hefjist nú þegar og standi til loka yfirstandandi kjörtímabils. Framhaldið verið ákveðið af nýrri bæjarstjórn, sem tekur við eftir sveitarstjórnarkosningar í vor, í samráði við ungmennaráð, þ.m.t. hvort greiða skuli fyrir nefndarsetuna.
Greinargerð
Ungmennaráð Reykjanesbæjar hefur nú um margra ára skeið fundað tvisvar á ári með bæjarstjórn; á vorin og haustin. Síðasti fundur ungmennaráðs og bæjarstjórnar fór fram þann 16. nóvember síðastliðinn. Á þeim fundi fluttu níu ungmenni kjarnmiklar, áhugaverðar og vel undirbúnar ræður um ýmis mál. Í kjölfarið átti undirritaður óformlegan fund með ungmennaráði mánudaginn 29. nóvember síðstliðinn þar sem gafst tækifæri til að ræða málin frekar. Á þeim fundi kom fram áhugi ungmennaráðs á að fá tækifæri til að kynnast viðfangsefnum sveitarfélagsins betur og leggja sín lóð á vogarskálarnar með þessum hætti. Það er í samræmi við áherslu um aukið notendasamráð sem m.a. má finna í lögum um félagsþjónustu, og málefni fatlaðra en einnig í samræmi við 12. og 13. greinar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem nú er verið að innleiða í stjórnsýslu Reykjanesbæjar. Í þessu samhengi má einnig nefna þingsályktunar-tillögu Ásmundar Einars Daðasonar um stefnu um Barnvænt Ísland, markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á Alþingi 10. júní síðastliðinn. Með stefnunni verður innleitt verklag og ferlar sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar, samstarf milli opinberra aðila með velferð barna að leiðarljósi aukið, ásamt því að tryggja markvisst verklag við hagsmunamat út frá réttindum barna og velferð barna, auk heildstæðrar framkvæmdar réttinda barna.
Mikilvægt er að ungmennaráði Reykjanesbæjar verði boðið að tilnefna áheyrnafulltrúa á fundi nefnda og ráða sveitarfélagsins í ljósi þess hlutverks sem ungmennaráðsmeðlimir gegna, segir í tillögunni en í handbók ungmennaráða sveitarfélaganna eru listuð upp helstu hlutverk ungmennaráðsmeðlima og eru þau m.a. að vera málsvari ungmenna og stuðla að virkri þátttöku ungs fólks í sveitarfélaginu.
Bæjarstjórn samþykkir með öllum atkvæðum að vísa tillögunni til bæjarráðs 13. janúar 2022.