Unglingastig Háaleitisskóla flyst úr Njarðvíkurskóla í Heiðarskóla
Frá og með næsta hausti munu nemendur sem lokið hafa 7. bekk og búa á Ásbrú stunda nám í Heiðarskóla, en ekki Njarðvíkurskóla líkt og verið hefur undanfarin ár. Ástæða þessarar breytingar er að Njarðvíkurskóli er nú þéttsetinn á unglingastigi en rýmra er um nemendur í Heiðarskóla. Með breytingunni verða bekkjardeildir jafnari að stærð í báðum skólum, nemendum til hagsbóta. Þetta kemur fram í tilkynningu til frá Gylfa Jóni Gylfasyni, fræðslustjóra Reykjanesbæjar, í bréfi til foreldra barna í 8. - 10. bekk í Háaleitisskóla.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að nægur tími verði gefinn til aðlögunar. Þannig geti nemendur á unglingastigi sem þegar hafa hafið nám í Njarðvíkurskóla lokið námi þar óski foreldrar þess. Enn fremur geti nemendur á unglingastigi sem búa á Ásbrú og eiga systkini í Njarðvíkurskóla stundað nám sitt þar óski foreldrar þess. Því megi vera ljóst að breytingin verði hæg og gangi yfir á nokkrum árum að fullu.