Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Unglingar á Suðurnesjum standa sig vel
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 16. október 2020 kl. 07:23

Unglingar á Suðurnesjum standa sig vel

Skýrsla með niðurstöðum úr ESPAD-könnuninni 2019 um vímuefnanotkun unglinga á Suðurnesjum auk tveggja samanburðarsvæða hefur verið gefin út. Markhópur rannsóknarinnar voru allir fimmtán og sextán ára nemendur í 10. bekk á Íslandi þegar könnunin var lögð fyrir vorið 2019. Alls tóku 1.250 (48,6%) strákar og 1.323 (51,4%) stelpur þátt í rannsókninni á landsvísu, þar af 105 strákar af Suðurnesjum og 109 stelpur. Í ESPAD-könnuninni 2019 er könnuð útbreiðsla reykinga ásamt áfengis- og vímuefnaneyslu meðal íslenskra unglinga. Í samantektarskýrslu sem gefin hefur verið út eru helstu niðurstöður ESPAD 2019 kynntar varðandi 10. bekkinga á Suðurnesjum. Niðurstöður úr könnuninni eru mjög jákvæðar fyrir unglinga á Suðurnesjum. Samanburðarhópar eru annars vegar höfuðborgarsvæðið án Suðurnesja og hins vegar landsbyggðin.

Sígarettur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mjög hefur dregið úr reykingum íslenskra unglinga undanfarna áratugi. Á Suðurnesjum hafði lægra hlutfall prófað að reykja sígarettur en á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni utan Suðurnesja. Hlutfallið var einnig lægra á Suðurnesjum meðal þeirra sem höfðu reykt 40 sinnum eða oftar en á samanburðarsvæðunum. Aðeins færri strákar en stelpur á Suðurnesjum höfðu einhvern tímann reykt sígarettur. Aðeins lægra hlutfall unglinga á Suðurnesjum töldu auðvelt að ná sér í sígarettur en meðal þátttakenda í samanburðarhópunum tveimur.

Rafrettur

Í fyrri umferðum ESPAD var ekki spurt um reykingar með rafrettum og því ekki mögulegt að skoða breytingar frá fyrri könnunum. Nokkuð færri unglingar á Suðurnesjum höfðu reykt rafrettur einhvern tímann á ævinni en jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Hlutfall unglinga á Suðurnesjum sem sögðust reykja rafrettur næstum daglega var mun lægra en meðal jafnaldra þeirra í samanburðarhópunum. Aðeins stelpur reyktu næstum daglega með rafrettum. Örlítið fleiri 10. bekkingar höfðu prófað að reykja með rafrettum en reykt sígarettur.

Áfengi

Líkt og með reykingar þá hefur dregið mjög úr áfengisneyslu íslenskra unglinga á liðnum áratugum. Um 23% unglinga í 10. bekk á Suðurnesjum sögðust hafa drukkið áfengi síðastliðið ár. Þetta er svipað hlutfall og á höfuðborgarsvæðinu samantekið en lægra en á landsbyggðinni. Stelpur á Suðurnesjum voru líklegri til að hafa prófað að drekka áfengi en strákar síðustu tólf mánuði. Hlutfall þátttakenda á Suðurnesjum sem taldi erfitt að ná í sterkt áfengi var svipað og í viðmiðunarhópunum. Heldur auðveldara var fyrir ungilinga á Suðurnesjum að ná sér í bjór en sterkt áfengi sem og annars staðar á landinu. Aðgengi að bjór var mjög svipað og hjá samanburðarhópunum.

Kannabis

Hlutfall þeirra sem hefur einhvern tíma prófað kannabis hefur heldur minnkað yfir þau rúm tuttugu ár sem rannsóknin spannar hér á landi. Á Suðurnesjum voru 10. bekkingar aðeins ólíklegri til að hafa prófað kannabis en jafnaldrar þeirra sem búa annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Á Suðurnesjum hafði svipað hlutfall stráka og stelpna prófað kannabis. Þátttakendur á Suðurnesjum voru ólíklegri en á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni til að telja frekar eða mjög auðvelt fyrir þá að nálgast kannabisefni.

Ýmsir aðrir þættir voru einnig kannaðir.

Samband við foreldra

Um 83% unglinga á Suðurnesjum sögðust næstum alltaf eða oft eiga auðvelt með að fá hlýju og umhyggju frá foreldrum sínum. Hlutfallið var hæst á höfuðborgarsvæðinu en svipað og á landsbyggðinni utan Suðurnesja. Um það bil helmingur íslenskra unglinga sagði að foreldrar þeirra settu þeim oft eða alltaf skýrar reglur heima fyrir. Á Suðurnesjum var hlutfallið 47% sem er lægra en á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni utan Suðurnesja.

Fjárhættuspil

Tæplega 5% unglinga á Suðurnesjum höfðu spilað upp á peninga síðastliðna tólf mánuði, það er nokkuð lægra hlutfall en hjá unglingum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni utan Suðurnesja. Strákar á Suðurnesjum voru líklegri til að spila fjárhættuspil en stelpur. Það sama á við um stráka og stelpur á viðmiðunarsvæðunum þó munurinn á kynjunum sé meiri.

Tölvuleikir

Um 30% þátttakenda á Suðurnesjum sögðust spila tölvuleiki svo til daglega, sem er svipað hlutfall og á höfuðborgarsvæðinu en nokkuð lægra en á landsbyggðinni utan Suðurnesja. Til þess verður að líta að verulegur munur er milli kynja hvað þetta varðar þar sem hlutfall stráka í daglegum tölvuleikjum var tæplega 50% en stelpna 11%. Álíka kynjamun má sjá í viðmiðunarhópunum tveimur. Um 14% unglinga á Suðurnesjum voru sammála því að þeir eyddu of miklum tíma í tölvuleiki. Hlutfall þátttakenda á viðmiðunarsvæðum sem voru sammála að þeir eyddu og miklum tíma í tölvuleikjum var nokkuð hærri.

Internet

Langflestir þátttakenda á Suðurnesjum sem og í viðmiðunarhópunum tveimur notuðu Internetið í frístundum svo til daglega.

Samfélagsmiðlar

Tæpum helmingi unglinganna á Suðurnesjum fannst þeir eyða of miklum tíma á samfélagsmiðlum sem er svipaða hlutfall en á samanburðarsvæðunum.

Íþróttir og líkamsrækt

Rúmlega 60% þátttakenda á Suðurnesjum sagðist taka daglega þátt í íþróttum og líkamsrækt sem er nokkuð hærra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni utan Suðurnesja. Á Suðurnesjum tóku heldur fleiri strákar þátt í daglegum íþróttum eða líkamsrækt en stelpur. Hlutfall stelpna og stráka sem tóku a.m.k. vikulega þátt í íþróttum var mjög svipað.

Bóklestur til ánægju

Um 29% þátttakenda á Suðurnesjum lásu aldrei bækur sér til ánægju sem er aðeins hærra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni utan Suðurnesja. Miðað við þá sem aldrei lásu bækur voru þeir færri 10. bekkingarnir á Suðurnesjum sem lásu bækur sér til ánægju a.m.k. einu sinni í viku eða oftar. Nokkuð fleiri strákar en stelpur á Suðurnesjum lásu aldrei bækur sér til ánægju. Meðal stelpna var nákvæmlega jafnt hlutfall þeirra sem aldrei lásu bækur og þeirra sem lásu bækur a.m.k. einu sinni í viku eða næstum daglega. Meðal stráka var helmingi lægra hlutfall sem las bækur a.m.k. vikulega en þeirra sem aldrei lásu bækur.

Skrópað í skólanum

Svipað hlutfall 10. bekkinga á Suðurnesjum hafði skrópað í kennslustundum og á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Aðeins fleiri stelpur en strákar höfðu skrópað í skólanum á Suðurnesjum en munur á kynjunum var ekki mikill.

ESPAD er langstærsta
rannsóknarverkefni samtímans á vímuefnaneyslu og öðrum þáttum í lífi unglinga hvað varðar fjölda landa sem taka þátt, fjölda nemenda í hverri umferð og lengd þess tímabils sem verkefnið nær til. Skýrslan var unnin af Ársæli Arnarssyni, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, ábyrgðarmanns ESPAD á Íslandi, og Ingibjörgu Kjartansdóttur á Menntavísindastofnun HÍ.