UNGLINGAMÁLIN Í BRENNIDEPLI
Áfengis- og útivistarmál unglinga voru helsta viðfangsefni lögreglunnar í Keflavík þessa vikuna og óttast menn þar á bæ sprengingu í þessum málum um næstu helgi því samræmdu prófunum lýkur í þessari viku. „Við þurftum að hafa afskipti af 18 unglingum vegna brota á útivistarreglum og jafnframt var mikill bjór í umferð hjá þessum krökkum. Þá höfum við spurnir af miklum áhuga unglinga á árlegri Kringlusamkomu eftir samræmdu prófin en það hefur hingað til verið fyllerís- og slagsmálasamkoma“, sagði Arngrímur Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður, hjá lögreglunni í Keflavík.