Ungir körfuboltamenn í lyfjapróf
Stjórnir Körfuknattleiksdeildar og Ungmennafélags Njarðvíkur hafa ákveðið að fram fari lyfjapróf hjá öllum flokkum félagsins í körfubolta þar sem iðkendur eru 13 ára og eldri. Í bréfi sem sent var foreldrum ungmenna sem æfa með Njarðvík segir að þetta sé gert að gefnu tilefni þar sem notkun fíkniefna sé ekki liðin hjá félaginu. Í bréfinu kemur einnig fram að iðkendur verði prófaðir án viðvarana, en um þvagprufur er að ræða sem framkvæmt verður undir eftirliti hjúkrunarfræðings.Foreldrum var gefin kostur á því að mótmæla prófinu, en Hafsteinn Hilmarsson formaður Körfuknattleiksdeildar Ungmennafélagsins Njarðvík sagði í samtali við Víkurfréttir að ekkert foreldri hafi mótmælt þessari ákvörðun. Hafsteinn segir að þetta sé gert í forvarnarskyni og til að blása á sögusagnir um fíkniefnaneyslu meðal iðkenda körfuknattleiks á Suðurnesjum:
„Við höfum verið að heyra sögusagnir um fíkniefnaneyslu hjá eldri krökkunum í körfuboltanum og að sjálfsögðu líðum við ekki fíkniefnaneyslu. Við höfum haldið fundi með eldri deildunum þar sem við létum vita af því að þessi próf myndu fara fram. Við munum ekki líða fíkniefnaneyslu af neinu tagi og sá sem verður uppvís að slíku mun ekki spila undir merkjum félagsins, en félagið er hinsvegar tilbúið að veita aðstoð við að finna meðferðarúrræði ef þess er þörf,“ segir Hafsteinn og vonast til að umræðan snúist ekki upp í neikvæðni: „Við erum ekki sáttir við að neysla þrífist í okkar starfsemi og við viljum framkvæma prófin í forvarnaskyni. Þetta hefur mælst vel fyrir og við höfum fengið góð viðbrögð við fyrirætlunum okkar frá Körfuboltasambandinu,“ sagði Hafsteinn í samtali við Víkurfréttir.
Hrannar Hólm formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að það hefðu komið upp sögusagnir um að leikmenn innan Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur væru að neyta fíkniefna en að það hafi engin mál verið í gangi sem hafi þurft að taka á þegar þau voru skoðuð ofan í kjölinn: „Reglurnar eru mjög einfaldar hjá okkur því ef einhver verður uppvís að fíkniefnanotkun þá er viðkomandi rekinn úr félaginu. Foreldrar verða að geta treyst því að það sé tekið á þessum málum innan félagsins. Við höfum útskýrt þessar reglur fyrir iðkendum og það eru allir meðvitaðir um þessar reglur. Tímarnir breytast og það getur verið erfitt að átta sig á því sem er að gerast hjá unga fólkinu og þess vegna fara í gang sögusagnir, en reglurnar eru alveg skýrar og við treystum því að við fáum að vita ef eitthvað kemur upp.“
Hrannar segir að þessi mál hafi verið rædd innan körfuknattleiksdeildarinnar: „Ég neita því ekki að það hefur verið rætt um að fara af stað með fíkniefnapróf en það er bæði dýrt og erfitt og spurning hvaða áhrif slíkt próf hafi á fólk. Þetta er lítill bær og maður fréttir hlutina, en það getur vel verið að við förum af stað með slík próf,“ sagði Hrannar í samtali við Víkurfréttir.
„Við höfum verið að heyra sögusagnir um fíkniefnaneyslu hjá eldri krökkunum í körfuboltanum og að sjálfsögðu líðum við ekki fíkniefnaneyslu. Við höfum haldið fundi með eldri deildunum þar sem við létum vita af því að þessi próf myndu fara fram. Við munum ekki líða fíkniefnaneyslu af neinu tagi og sá sem verður uppvís að slíku mun ekki spila undir merkjum félagsins, en félagið er hinsvegar tilbúið að veita aðstoð við að finna meðferðarúrræði ef þess er þörf,“ segir Hafsteinn og vonast til að umræðan snúist ekki upp í neikvæðni: „Við erum ekki sáttir við að neysla þrífist í okkar starfsemi og við viljum framkvæma prófin í forvarnaskyni. Þetta hefur mælst vel fyrir og við höfum fengið góð viðbrögð við fyrirætlunum okkar frá Körfuboltasambandinu,“ sagði Hafsteinn í samtali við Víkurfréttir.
Hrannar Hólm formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að það hefðu komið upp sögusagnir um að leikmenn innan Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur væru að neyta fíkniefna en að það hafi engin mál verið í gangi sem hafi þurft að taka á þegar þau voru skoðuð ofan í kjölinn: „Reglurnar eru mjög einfaldar hjá okkur því ef einhver verður uppvís að fíkniefnanotkun þá er viðkomandi rekinn úr félaginu. Foreldrar verða að geta treyst því að það sé tekið á þessum málum innan félagsins. Við höfum útskýrt þessar reglur fyrir iðkendum og það eru allir meðvitaðir um þessar reglur. Tímarnir breytast og það getur verið erfitt að átta sig á því sem er að gerast hjá unga fólkinu og þess vegna fara í gang sögusagnir, en reglurnar eru alveg skýrar og við treystum því að við fáum að vita ef eitthvað kemur upp.“
Hrannar segir að þessi mál hafi verið rædd innan körfuknattleiksdeildarinnar: „Ég neita því ekki að það hefur verið rætt um að fara af stað með fíkniefnapróf en það er bæði dýrt og erfitt og spurning hvaða áhrif slíkt próf hafi á fólk. Þetta er lítill bær og maður fréttir hlutina, en það getur vel verið að við förum af stað með slík próf,“ sagði Hrannar í samtali við Víkurfréttir.