Ungi endar lífið í kjafti kisu
Lítill sætur ungi endaði líf sitt í kjafti læðu, sem býr í Heiðarholtinu í Keflavík seint í gærkvöldi. Læðan kom askvaðandi inn um stofugluggann heima hjá sér með ungann í kjaftinum og hugðist færa húsbónda sínum þakklætisgjöf seint í gærkvöldi. Ekki var húsbóndinn á heimilinu hrifinn af gjöfinni og rak köttinn umsvifalaust út úr íbúðinni með bráðina.
Einhverstaðar hafði húsbóndinn heyrt að ekki mætti skamma dýrin fyrir það að koma með gjafir sem þessar og þess vegna greip hann til myndavélarinnar og
myndaði aðfarir kattarins með bráð sína.
Kisi lék sér að dauðum fuglinum í smá tíma og ætlaði síðan að fara að rífa hann niður. Þá fannst húsbóndanum nóg komið, náði í plastpoka og lét hræið
hverfa. Sú athöfn fór alveg framhjá kisu, sem gerði umfangsmikla leit að fuglinum, sem var horfinn. Var vælt undir stofuglugganum eitthvað fram yfir
miðnætti, þegar læðan var kölluð inn í háttinn, eftir að hafa fengið pistil um það að svona mætti ekki gera.
Meðfylgjandi myndir eru af kettinum með bráð sína í gærkvöldi.