Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ungabarn afgreitt með vegabréf án viðurvistar foreldra
Fimmtudagur 20. júlí 2006 kl. 11:10

Ungabarn afgreitt með vegabréf án viðurvistar foreldra

Ungabarn var afgreitt með neyðarvegabréf af tollayfirvöldum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á mánudag án viðurvistar foreldra sinna. Jóhann R. Benediktsson, Sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða.

Atvikið vildi þannig til að foreldrar ungabarnsins fóru erlendis og skildu barnið eftir í pössun en vildu svo fá barnið til sín. Bróðir móðurinnar var því fenginn til þess að útvega barninu neyðarvegabréf. Eftir að bróðirinn framvísaði myndum af barninu til embætti Sýslumanns á Keflavíkurvelli var neyðarvegabréf afgreitt á rétt rúmum 10 mínútum án þess að foreldrar væru viðstaddir og undirskrift lægi fyrir.

Bróðir móður barnsins var ekki beðinn um að framvísa skilríkjum og því virðist sem hver sem er hefði getað sótt um neyðarvegabréf fyrir barnið. Samkvæmt lögum um vegabréf þarf umsækjandi að sanna á sér deili og gengið skal úr skugga um ríkisfang hans. Hins vegar virtist það eingöngu vera nóg að rita niður fullt nafn barnsins og framvísa af því mynd. Enn fremur þarf samþykki eins þeirra er fara með umsjá barnsins að liggja fyrir við útgáfu vegabréfs til barns undir 18 ára aldri. Þegar neyðarvegabréfið hafði verið afgreitt hélt barnið ásamt langömmu sinni erlendis þar sem þau hittu foreldra barnsins.

„Við erum búin að fara yfir verkferla og tryggja að þetta endurtaki sig ekki og erum afskaplega þakklát þessu fólki að hafa látið vita og vekja athygli á þessu máli,“ sagði Jóhann R. Benediktsson, Sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. „Hert verður á verkferlum en mistökin voru þau að erindið var afgreitt of fljótt og málið ekki skoðað nægilega vel,“ sagði Jóhann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024