Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 1. febrúar 2002 kl. 22:06

Undrast aðgerðir gegn Vítisenglum

Forsvarsmenn vélhjólaklúbbsins Fafner MC (Fáfnir) undrast hörku yfirvalda við að vísa úr landi liðsmönnum Vítisengla frá Danmörku. Brynjólfur Þór Jónsson, talsmaður vélhjólaklúbbsins, segir að Vítisenglarnir hafi verið hér á ferð sem almennir ferðamenn og á eigin vegum. Þetta kemur fram á Vísi.isLiðsmenn klúbbsins ætluðu að vera þeim innan handar með leiðsögn um landið. Brynjólfur sagði að jafnframt hafi þeir aðstoðað Vítisenglana við að bókun sýnisferða. "Við áttum bókaða ferð með Ævintýraferðum upp á Langjökul, Gullfoss og Geysi, Bláa lónið o.þ.h." Brynjólfur sagði að Vítisenglarnir hafi leitað til þeirra vegna sameiginlegs áhugamáls sem væri vélhjólaakstur.

Fáfnismenn hafa, að sögn Brynjólfs, enga vitneskju um að Vítisenglar hyggist hasla sér völl hér á landi líkt og forsvarsmenn yfirvalda hafa haldið fram. Hann segir þó vinskap á milli Fáfnis og samtaka Vítisengla og verið að skoða hvort klúbburinn geti fengið inngöngu í samtökin. Brynjólfur segir að þótt einstakir meðlimir Vítisengla kunni að hafa hlotið dóma sé ekki hægt að fordæma öll samtökin, honum vitanlega hafi þau ekki verið dæmd fyrir skipulagða glæpastarfsemi. "Það er ekki hægt að banna Sjálfstæðisflokkinn af því að Árni Johnsen gerði eitthvað af sér," bætti hann við. "Ég náttúrlega þekki ekki sakaskrá þessara manna, en hélt það væri grundvallaratriði í Vestur-Evrópu að menn tækju út sínar refsingar og þyrftu ekki að bera þá bagga til æviloka."

Brynjólfur sagði að í vélhjólaklúbbnum sameinuðust alls konar menn um sameiginlegt áhugamál sem væru vélhjólin. "Ég held við séum ósköp venjulegir borgarar. Allir í vinnu, sumir með fjölskyldur, sumir einhleypir. Þetta er bara þversnið af þjóðfélaginu, allt frá ungum mönnum upp í menn eins og mig sem eru að nálgast fimmtugt. Það er bara eins og gengur og gerist og á engan hátt eitthvert samsafn af óþjóðalýð," sagði hann og áréttaði að það væri rangt sem haldið hafi verið fram að allir stofnendur klúbbsins hafi sagt sig úr honum. "Það er verið að gera úlfalda úr mýflugu," sagði hann.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024