Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Undirskriftasöfnun og hvað svo?
Miðvikudagur 3. júní 2015 kl. 16:05

Undirskriftasöfnun og hvað svo?

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar veltir upp spurningum og svörum við því

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur samþykkt að heimila fulltrúum íbúa að standa fyrir undirskriftasöfnun til að fram fari íbúakosning um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík. Heimild til þessa er að finna í sveitarstjórnarlögum. Deiliskipulagsbreytingin er hluti af samningum sem Reykjanesbær gerði í maí árið 2014 við fyrirtækið Thorsil vegna fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins. Áður hafði sams konar verksmiðju, í eigu United Silicon, verið veitt starfsleyfi ásamt fyrirhugðu álveri Norðuráls í Helguvík.

Sveitarfélögum er heimilt, innan vissra marka, að ákveða hlutfall kosningabærra íbúa sem þurfa að skrifa undir. Í gildandi bæjarmálasamþykkt Reykjanesbæjar er þetta hlutfall 25%. Það þýðir að á milli 2500 og 3000 undirskriftir mun þurfa til þess að bæjaryfirvöldum beri að láta kjósa um deiliskipulagsbreytinguna.  Ástæða þess að menn vilja fá fram íbúakosningu er, eins og fram hefur komið í umræðunni síðustu daga og vikur, efasemdir ákveðins hóps íbúa um að mengun frá áðurnefndu kísilveri, og öðrum verksmiðjum sem þegar hafa fengið starfsleyfi, verði innan marka sem lög og reglur gera kröfu um. Þessi efi er til staðar þrátt fyrir að Umhverfisstofnun telji slíkar áhyggjur óþarfar.

Framkvæmdin
Framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar er alfarið í höndum þeirra sem að henni standa en Reykjanesbæ ber skv. lögum að aðstoða eftir fremsta megni. Áður en undirskriftasöfnunin hefst þarf að taka nokkrar ákvarðanir og stíga ýmis skref í góðri sátt beggja aðila. Til dæmis þarf að ákveða orðalag áskorunarinnar, sem íbúar verða beðnir um að skrifa undir, hvort undirskriftasöfnunin verði með hefðbundnum hætti eða rafræn, semja við Þjóðskrá um yfirferð allra undirskrifta til þess að staðfesta að þær séu sannar, ákveða tímabilið sem undirskriftasöfnunin fer fram og síðast en ekki síst að auglýsa undirskriftasöfnunina svo almenningi sé kunnugt um hana og tilgang hennar. Þetta ferli tekur allt sinn tíma og kallar á vinnuframlag og kostnað af hálfu sveitarfélagsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En hvað svo?
Ef forsvarsmönnum undirskriftasöfnunarinnar tekst að ná tilskildum fjölda undirskrifta, sem Þjóðskrá staðfestir, ber sveitarfélaginu að láta fara fram íbúakosningu. Þá tekur við svipað ferli og í íbúakosningunni; ákveða þarf, í samráði við forsvarsmenn hópsins, spurninguna sem íbúar munu kjósa um, formið á kosningunni, hvort hún verði ráðgefandi eða bindandi, tímasetningu, auglýsingu o.fl.

Í áðurnefndum sveitarstjórnarlögum kemur fram að íbúakosning skuli fara fram innan eins árs frá því að niðurstöður undirskriftasöfnunar liggja fyrir. Í lögunum er gert ráð fyrir að íbúakosningar séu ráðgefandi, nema bæjaryfirvöld ákveði annað, en bæjarfulltrúar hafa þegar sagt opinberlega að kosningin muni verða ráðgefandi en ekki bindandi. Eins og í undirskriftasöfnuninni ber Reykjanesbæ að standa straum af kynningarkostnaði vegna íbúakosningarinnar.

Ferlið stöðvast ekki
Lögin gera ráð fyrir að þó að nægur fjöldi undirskrifta náist til að Reykjanesbæ beri að láta fara fram íbúakosningar trufli það ekki ferlið sem þegar er hafið. Reykjanesbær mun því halda áfram að uppfylla gerða samninga við fyrirtækin sem um ræðir og leggja áherslu á að standa við sitt, segir Kjartan Már Kjartansson í pistli sínum á heimasíðu Reykjanesbæjar.