Undirskriftasöfnun: Mótmæla stóriðju í Helguvík
Hafin er undirskriftasöfnun gegn stóriðju í Helguvík. Yfirskrift söfnunarinnar er Stopp á stóriðju í Helguvík. Með söfnuninni á að skora á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ og á Umhverfisstofnun að rifta samningum við Thorsil vegna fyrirhugaðrar byggingar kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Á vef undirskriftasöfnunarinnar segir að bæjarbúar hafi upplifað það á eigin skinni undanfarið hvernig það er að búa í nálægð við stóriðju, eftir að kísilmálmverksmiðja United Silicon tók þar til starfa. Gangi áætlanir eftir mun kísilver Thorsil rísa í Helguvík eftir tvö ár. Undirskriftasöfnunin hófst um helgina og hefur rúmlega 2.300 undirskriftum verið safnað.
Kísilver United Silicon hóf starfsemi á dögunum og hafa íbúar kvartað vegna reyk- og lyktarmengunar.
Áskorunin til bæjaryfirvalda og Umhverfisstofnunar er eftirfarandi:
Við undirrituð skorum á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ að rifta samningum við Thorsil vegna fyrirhugaðrar byggingar kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Forsendur til þess eru fyrir hendi þar sem Thorsil hefur ekki staðið skil á þeim gjöldum sem fyrirtækið átti að greiða fyrir tveimur árum.
Bæjarbúar hafa upplifað það á eigin skinni undanfarið hvernig það er að búa í nálægð við stóriðju, eftir að kísilmálmverksmiðja United Silicon tók til starfa. Margir íbúar Reykjanesbæjar eru ekki sáttir við það hlutskipti og kvíða framhaldinu vegna áforma um fjölgun brennsluofna og meiri stóriðju í Helguvík. Heilsa og velferð bæjarbúa verður að vera í fyrirrúmi.
Í ljósi þess sem bæjarbúar upplifa núna vegna mengunar frá United Silicon, skorum við jafnframt á Umhverfisstofnun að gefa ekki út nýtt starfsleyfi fyrir kísilmálmverkmiðju Thorsil að svo komnu máli. Þá er þess jafnframt krafist að farið verði rækilega í saumana á þeim forsendum sem lágu til grundvallar útgáfu starfsleyfis til United Silicon í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram um loftdreifilíkan þess og danska verkfræðistofan COWI vill ekki kannast við. Svipta skal verksmiðjuna starfsleyfi séu þær upplýsingar réttar.
Bæjarbúar krefjast þess að fá að njóta vafans.