Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Undirbúningur fyrir Ljósanótt í fullum gangi
Árgangagangan er einn af fjölmörgum viðburðum á Ljósanótt.
Þriðjudagur 16. ágúst 2016 kl. 06:00

Undirbúningur fyrir Ljósanótt í fullum gangi

Bæjarbúar og starfsmenn Reykjanesbæjar eru nú í óða önn að undirbúa Ljósanæturhátíðina sem sett verður í 17. sinn 1. september næstkomandi við Myllubakkaskóla. Að venju þjófstartar tónlistarveislan Með blik í auga í Andrews Theater miðvikudagskvöldið 31. ágúst og verslanir verða með góð Ljósanæturtilboð og kvöldopnun þann dag í tilefni hátíðarinnar.

Að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, er góð stemmning og eftirvænting að myndast í bænum. Einn af hápunktum Ljósanæturhátíðar í ár eru stórtónleikar Magnúsar Kjartanssonar og ljóssins engla sem verða á hátíðarsviðinu á laugardagskvöld. Með Magnúsi verða Björgvin Halldórsson, Gunnar Þórðarson og Stefanía Svavarsdóttir. Einnig koma fram Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Jóhanna Ruth og Páll Óskar. Að loknum tónleikum á hátíðarsviði verður glæsileg flugeldasýningu á Berginu í boði HS Orku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Annar stór tónlistarviðburður er tónlistarsýningin Með blik í auga sem nú er haldin í sjötta sinn. Yfirskrift sýningarinnar er „Hvernig ertu í kántrýinu?“ og verður kántrýtónlist efniviður hennar; í tónum, myndum og sögum. Flytjendur eru Björgvin Halldórsson, Eyjólfur Kristjánsson, Jóhanna Guðrún og Stefanía Svavarsdóttir ásamt stórhljómsveit Arnórs Vilbergssonar. Textahöfundur er Kristján Jóhannsson.
 
Heimatónleikar voru haldnir í fyrra og lukkuðust vel og verða þeir á sínum stað í elsta hluta bæjarins þar sem íbúar bjóða gestum heim, einnig hjólbörutónleikarnir í Keflavíkurkirkju. Fjölmargar listsýningar verða í gangi og í Duus Safnahúsum verða fjölbreyttar sýningar listafólks sem allt tengist Reykjanesbæ og Suðurnesjum með einhverjum hætti. Þær sýningar verða opnaðar á fimmtudeginum. Þá halda Hafnarbúar enn og aftur menningarhátíð á lokadegi Ljósanæturhátíðar, meðal annars með tónleikum Valdimars í Kirkjuvogskirkju og ljósmyndasýningu í Skólanum.

Ljósanæturhátíðin verður að venju sett við Myllubakkaskóla fimmtudaginn 1. september klukkan 10:30. Leik- og grunnskólabörn verða þar í aðalhlutverki eins og endranær en setningarathöfnin verður með nýju sniði í ár. „Það er alltaf hátíðleg stund þegar Ljósanótt er sett og við fögnum því með söng og annarri skemmtan. Ekki verður litið til himins til að horfa á eftir blöðrum heldur mun fallegi skrúðgarðinn okkar spila stærra hlutverk í setningarathöfninni," segir Valgerður.
 
Að lokinni setningarathöfn mun hver viðburðurinn reka annan og er þeim sem ætla að bjóða upp á dagskráratriði eða halda sýningu bent á að skrá viðburð sinn á vef Ljósanætur, sem nú er óðum að taka á sig heildstæða mynd. Til að komast í prentaða dagskrá þarf að skrá viðburð fyrir 20. ágúst. Þá er þeim sem hafa áhuga á að vera með sölutjöld við hátíðarsvæðið á Bakkalág bent á að hafa samband við unglingaráð körfuknattleiksdeildanna gegnum netfangið [email protected].

Af öðrum dagskrárliðum má nefna sagnakvöld eldri borgara á Nesvöllum, árgangagönguna þar sem 50 ára árgangurinn verður í aðalhlutverki og heldur hátíðarræðu á stóra sviðinu á laugardag, Skessuna sem tekur á móti gestum og býður í lummur, opnar vinnustofur víða um bæinn, kjötsúpu og bæjarstjórnarband á bryggjuballi og margt fleira. Hægt er að nálgast dagskrána á vef Ljósanætur.