Undirbúa stofnun Hollvinafélags Bjargarinnar
- Að óbreyttu hættir reksturinn síðar á árinu
Undirbúningsfundur að stofnun Hollvinafélags Bjargarinnar - geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja var haldinn á mánudagskvöld. Í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar er ekki gert ráð fyrir fjármagni til rekstrar Bjargarinnar eftir mitt ár og að óbreyttu mun henni því verða lokað. Að sögn Hannesar Friðrikssonar, áhugamanns um starfsemi Bjargarinnar, voru mjög góðar umræður á fundinum. „Það var algjör samstaða um að starfsemi Bjargarinnar væri ekki eitthvað sem bæjaryfirvöld né aðrir sem á fundinn mættu vilja að verði sparað í burtu,“ segir hann.
Á fundinum komu fram tillögur sem nú er unnið að. Samstaða náðist um að reyna til þrautar að tryggja áframhaldandi rekstur og treysta á félagasamtök og fyrirtæki að sýna samfélagslega ábyrgð í málinu. „Þetta gæti orðið fallegt málefni hjá okkur núna þegar illa árar og myndi efla samstöðu í bænum,“ segir Hannes. Fimmtíu manna hópur ætlar að vinna saman að úrlausn málsins. Hannes kveðst mun bjartsýnni nú en áður um framtíð Bjargarinnar. „Mér sýnist viðhorfið vera það að leggjast á eitt og gera allt sem mögulegt er en það tekst ekki nema með ákveðni og baráttu.“
Björgin er endurhæfingarúrræði og athvarf þar sem fólki er veitt eftirfylgd eftir þörfum. Endurhæfingin er einstaklingsmiðuð, haldið er utan um endurhæfingaráætlanir, fylgst með mætingu og árangur metinn. Björgin á í samstarfi við geðteymi á HSS, geðsvið LSH, Samvinnu, félagsþjónustu sveitarfélaganna og fleiri. Björgin var opnuð árið 2005 og síðan þá hefur fjöldi þeirra sem þangað sækja þjónustu aukist jafnt og þétt.